Guðni hefur flutt sitt síðasta ávarp sem forseti

Guðni Th. Jóhannesson hélt sitt síðasta ávarp á forsetastóli, við …
Guðni Th. Jóhannesson hélt sitt síðasta ávarp á forsetastóli, við setningu utanvegahlaupsins Kerlingarfjöll Ultra í gær. Ljósmynd/Facebook/Forseti Íslands

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti í gær sitt síðasta ávarp á forsetastóli, í Kerlingarfjöllum við upphaf utanvegahlaupsins Kerlingarfjöll Ultra.

Þetta segir í færslu á Facebook-síðu Forseta Íslands.  

Guðni segir þar að hann hafi flutt ávarpið við bestu kringumstæður sem hann hefði getað hugsað sér, fátt sé magnaðra en fjallasalir og fögur víðerni, hverir og fossar, hálendi Íslands í allri sinni dýrð.

Hann var meðal þátttakenda í hlaupinu og hljóp 22 kílómetra.

Minntist frumherjanna

„Ég minntist fyrst frumherjanna sem reistu þar skíðaskála um miðja síðustu öld og ráku við miklar vinsældir áratugum saman. Ég leyfði mér að nefna þar sérstaklega Eirík Haraldsson sem kenndi mér í menntaskóla á sínum tíma og Valdimar Örnólfsson, þann þjóðþekkta íþróttafrömuð. Hann lagði svo sannarlega sitt af mörkum til að bæta heilsu landsmanna á marga vegu,“ segir í færslunni.

Í færslunni segir að hann hafi nefnt að margt hefði breyst frá því að fyrstu mannvirkin voru reist í Kerlingarfjöllum og að nú séu þar glæsileg gistihús en blessunarlega falli þau vel að viðkvæmri náttúru. „Virðing virðist borin fyrir umhverfi og sögu.“

Hefur lagt áherslu á lýðheilsu í víðum skilningi í embættinu

Þar segir einnig að hann hann hafi beint máli sínu til þeirra hlaupara sem biðu eftir að spretta úr spori og minnti á mikilvægi þess að við reyndum öll að bera ábyrgð á eigin heilbrigði eftir bestu getu.

„Í mínu embætti hef ég lagt áherslu á lýðheilsu í víðum skilningi,“ segir í færslunni.

„Við munum aldrei mæta auknum áskorunum á sviði heilsu og hjúkrunar með því einu að byggja fleiri sjúkrahús og hjúkrunarheimili, fjölga heilbrigðisstarfsfólki, þróa og selja fleiri lyf.“

„Við þurfum að hugsa forvirkt, fyrirbyggja vanda frekar en að mæta honum síðar. Öll okkar hvatning í þeim efnum verður líka að vera með jákvæðum formerkjum og hvert og eitt okkar þarf að finna hreyfingu og lífsstíl við hæfi.“

„Þið eruð geggjuð!“

Í færslunni segir að hann hafi hvatt hlauparana til dáða og að hann hafi um leið náð að nota orð sem hann hafi ætíð ætlað að hafa í ávarpi en ekki fundið hentugt tilefni fyrr en nú.

„„Þið eruð geggjuð!“ sagði ég um leið og liðið var ræst út.

Sæþór og Edda, börn Guðna, hlupu með honum síðustu metrana …
Sæþór og Edda, börn Guðna, hlupu með honum síðustu metrana að marklínunni. Ljósmynd/Facebook/Forseti Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert