Hafði getað orðið egg á andliti mínu

Jakob Frímann Magnússon naut ferðalagsins við gerð Future Forecast.
Jakob Frímann Magnússon naut ferðalagsins við gerð Future Forecast. Ljósmynd/Pétur Fjeldsted

Þetta voru spennuþrungnar þrjár æfingar við að ná mannskapnum saman í takt og tón og ég held að við höfum öll verið með talsverðan hnút í maganum yfir því hvernig kynni að fara. Ég hef eiginlega aldrei verið eins tvístígandi yfir því hvort ég ætti yfirhöfuð að vekja athygli á tónleikum; þetta hefði nefnilega getað orðið egg á andliti mínu og hinna níu þátttakendanna hefðu menn misst móðinn, minnið og orkuna.“

Þetta segir Jakob Frímann Magnússon um tónleika Jack Magnet Science, þar sem flunkuný rafdjassplata, Future Forecast, var frumflutt í heild sinni á Listahátíð í Reykjavík fyrr í sumar. 

Ástæðan var sú að kjarnahópurinn sem kom að upptökum í Flókastúdíóinu norður í Fljótum sumarið 2022 hafði ekki hist síðan. Þrautinni þyngra reyndist að ná mannskapnum saman aftur. Þar kom sitthvað til, m.a. að Peter Erskine trommuleikari frá Bandaríkjunum átti stórafmæli á fyrirhuguðu æfingatímabili, en ákvað samt að slást í hópinn á elleftu stundu, og það þrátt fyrir taugatrekkjandi „tölvan segir nei“-augnablik á flugvellinum heima í Los Angeles. Nafn konu hans hafði misritast við bókun.

Rifja þurfti upp leiðina

Við tók ferli sem fólst í því að rifja upp leiðirnar og slóðana í músíkinni, greina vörðurnar og muna hvar í landslaginu öllu hafði verið fyrir komið. „Þarna þurftu þeir sem að þessu komu að rifja upp hvað hafði gerst fyrir norðan og greina hvað hafði breyst síðan. Menn muna bara svo og svo mikið af ferðalögum sínum um heimsins byggðir, hlutlægar sem hljómlægar, og við það bættust allar hjáleiðirnar og vegvísarnir sem höfðu orðið til í ferlinu með dyggu atfylgi Árna Hjörvar Árnasonar, fyrirtaks tónlistarmanns og upptökustjóra, sem á stóran þátt í lokaniðurstöðunni.“

Jack Magnet Science eins og hópurinn birtist okkur á Listahátíð …
Jack Magnet Science eins og hópurinn birtist okkur á Listahátíð í Reykjavík.


Allt small síðan á tónleikunum. „Þetta voru einhverjir ánægjulegustu tónleikar sem ég hef tekið þátt í. Það má meðal annars þakka frábærri hljóðstjórn Friðriks Helgasonar og Þrastar Albertssonar. En ég viðurkenni að það er með stærri áskorunum sem ég hef staðið frammi fyrir í mínu tónlistarlífi að koma þessu öllu heim og saman.“

Lofsamlegar umsagnir

Umsagnir um Future Forecast eru teknar að birtast í erlendum miðlum og fagtímaritum og eru gegnumsneitt lofsamlegar.

Exclusive Magazine segir plötuna frábærlega mótaða og lýkur lofsorði á flæðið, spunann og þau hugartengsl sem augljóslega hafi orðið til við gerð plötunnar, þar sem hvert og eitt verk sé í sjálfu sér stúdía á þeim möguleikum sem tónlistin hefur upp á að bjóða. Og hvað hugsanlega blasi við okkur í þeim efnum.

Plötuumslagið er eftir Gunnar Karlsson og Ámunda Sigurðsson.
Plötuumslagið er eftir Gunnar Karlsson og Ámunda Sigurðsson.


Bandcamp Daily segir fölskvalausa gleði ráða ríkjum og tónlistin sé upplögð þegar talið er inn í helgina. „Future Forecast stendur saman af óteljandi hreyfanlegum pörtum en hver og einn þeirra kallast á við hina – nákvæmnin er kviksjárleg en um leið streymir blóðið eins og elfur í örum vexti í átt að hjartanu sem slær ótt og títt.“

Gagnrýnandi UK Jazz News er ekki síður hrifinn. Segir plötuna óhefðbundna, dínamíska og jafnvel kaótíska á köflum og að henni sé augljóslega ætlað að ryðja nýja braut innan hins stríðmannaða sviðs rafdjassins.

Nánar er rætt við Jakob Frímann um Future Forecast í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert