„Hótelið alveg fullbókað fyrir sólmyrkvann 2026“

Tvö ár eru í sólmyrkvann en hótelrekendur finna vel fyrir …
Tvö ár eru í sólmyrkvann en hótelrekendur finna vel fyrir eftrispurninni. Samsett mynd

„Við höfum sannarlega fengið helling af bókunum og nú er hótelið alveg fullbókað fyrir sólmyrkvann 2026. Bókunarstaðan er bara 100%.“

Þetta segir Gísli Magnason, hjá Hótel West á Patreksfirði, í samtali við mbl.is. Rúm tvö ár eru þangað til að næsti almyrkvi verður sjáanlegur frá Íslandi, en 12. ágúst 2026 mun hann ganga yfir vestanvert landið og ná hámarki úti fyrir Látrabjargi. 

„Fólk er snemma í því að bóka, en pantanir fóru að berast nú í upphafi sumarsins, og eru enn að berast. Því er einnig talsverður fjöldi á biðlista eftir að komast að, en ég gæti vel trúað því að staðan sé svipuð á öðrum hótelum hérna í grenndinni,“ segir Gísli. 

Hann segir áhugann að mestu leyti koma erlendis frá, en einnig hafi innlendar ferðaskrifstofur sett í sig í samband við hótelrekendur á svæðinu og óskað eftir lausum herbergjum.

Svipað uppi á teningnum á Ísafirði

Almyrkvar á sólu eru nokkuð sjaldséðir, en sá síðasti varð hér árið 1954. Þarnæsti myrkvi mun svo sjást á Íslandi árið 2196 og því ljóst að um einstakann atburð að ræða.

Kristján Kristjánsson, hótelrekandi á Ísafirði segir bókunarstöðuna á Ísafirði, í kringum sólmyrkvann, vera svipaða og á Patreksfirði en hann segist sömuleiðis finna fyrir mikilli eftirspurn meðal erlendra ferðamanna.

„Við höfum opnað fyrir bókanir, og staðan í ágúst 2026 er bara nokkuð góð. Um 65% herbergjanna eru nú þegar bókuð, en ferðaþjónustur og fleiri hafa verið afar duglegir við að bóka hjá okkur,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

„Því fer hver að verða síðastur, í að tryggja sér gistingu á þessum tíma, en ég gæti vel trúað því að talsverður fjöldi muni koma hingað í tengslum við sólmyrkvann, ef þetta er eitthvað að marka,“ segir Kristján að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert