Í hættu á hverju einasta augnabliki

Goðafoss var eitt af skipunum sem sigldu um Atlantsála í …
Goðafoss var eitt af skipunum sem sigldu um Atlantsála í stríðinu. Þýskur kafbátur sökkti skipinu 1944.

„Sjómennirnir okkar hafa oft verið kallaðar „hetjur hafsins“, „hermenn Íslands“ og fleira þess háttar. Ekkert er þeim sjálfum hvimleiðara en þessar upphrópanir, sem venjulega eru notaðar til skrauts í ræðum eða blaðagreinum við hátíðleg tækifæri. En hafi sjómaðurinn verið í hættum á friðartímum, þá segir það sig sjálft, hve hann er í margfalt meiri hættu nú.“

Þessi orð koma úr penna Ívars Guðmundssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, en í lok júlí 1941 birtist eftir hann grein í blaðinu, þar sem hann lýsti siglingu sem hann átti aðild að frá Íslandi til Bretlands og aftur til baka. Á þessum tíma geisaði stríð og orrustan um Atlantshafið í algleymingi.

Ívar botnaði málsgreinina með þessum hætti: „Frá því að skip leggur úr höfn hjer í Reykjavík og þar til það kemur heim aftur er það í yfirvofandi hættu á hverju einasta augnabliki. Þetta vita sjómennirnir okkar. En það verður ekki á þeim sjeð. Æðrulaust og ákveðið ganga þeir að sínum verkum bæði nótt og dag. Spaugsyrði hrjóta af vörum um „kríuvargana hans Görings“ og „smáfiskana hans Hitlers“.“

Búið loftvarnabyssum

Íslenska skipið sem hann sigldi með heim, hann mátti ekki gefa upp nafnið af öryggiástæðum, var búið fjórum loftvarnabyssum og 10 manns af skipshöfninni höfðu verið á námskeiði til að læra skotfimi og voru útskrifaðir með ágætiseinkunn, eftir óvenjulega stutt námskeið.

Ívar Guðmundsson blaðamaður.
Ívar Guðmundsson blaðamaður.


Að sögn Ívars voru skiptar skoðanir um vopnin um borð en öllum fannst þeir þó öruggari fyrir vikið. Einhverjum þótti þó hlutleysi landsins teflt í hættu yrðu vopn notuð gegn óvinum. „Mitt álit er, eftir að hafa kynst nokkuð siglingum á ófriðarsvæðunum, að það gangi glæpi næst, að senda nokkuð skip á ófriðarsvæðið, nema að það sje vel búið vopnum, einkum gegn flugvjelum. Vopn þessi verða aldrei notuð í árásarskyni, heldur eingöngu ef á skipið er ráðist og það getur ekki samkvæmt neinum lögum verið hlutleysisbrot að verja hendur sínar gegn ofbeldisverknaði, hvort sem er á sjó eða landi.“

Í þessu sambandi benti Ívar á, að miskunnarleysið gæti verið algjört í stríði. „Varnarlausir sjómenn eru brytjaðir niður með vjelbyssum eða fallbyssukúlum fyrirvaralaust og það er hart að láta drekkja sjer eða myrða eins og rottu í gildru, án þess að geta nokkra vörn sjer veitt.“

Nánar er fjallað um siglingu Ívars í laugardagsblaði Morgunblaðsins en greinin er liður í greinaflokknum Morgunblaðið 110 ára - gömul saga og ný. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert