Lestrarvandinn mestur á Suðurnesjum, minnstur í Reykjavík

PISA-gögn sem gerð voru opinber í janúar sýna mikinn mun …
PISA-gögn sem gerð voru opinber í janúar sýna mikinn mun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað varðar lestrarhæfni barna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 61 prósent 15 ára drengja á Suðurnesjum býr ekki yfir grunnhæfni í lesskilningi, samkvæmt niðurstöðum PISA 2022. Þegar niðurstöður læsisprófs PISA eru skoðaðar eftir landshlutum má sjá afgerandi mun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Niðurstöður úr PISA flokkaðar eftir landshlutum voru kynntar á opnum fundi er nefndist „Pælt í PISA - Pælt í læsi“ sem haldinn var í janúar á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Mennta- og barnamálaráðuneytis, Menntamálastofnunar, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla.

Stofnuninar héldur alls sjö opna fundi þar sem rýnt var í niðurstöður úr mismunandi þáttum prófsins.  PISA er umfangsmikil alþjóðleg könnun á vegum OECD á hæfni og getu 15 ára nemenda í grunnskólum.

Kynjamunur hvað lesskilning varðar var mestur utan höfuðborgarsvæðisins og nemendur á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig almennt betur en nemendur á landsbyggðinni.

Drengir á Suðurnesjum reka lestina

Niðurstöðunum er skipt í sex landshluta: Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur, Suðurnes, Suðurland, Vestur- og Norðvesturland og síðan Austur- og Norðausturland. Í raun eins og kjördæmin.

Þegar litið er á landshluta má sjá að 61% drengja á Suðurnesjum sem tóku þátt í prófinu hafi ekki náð þeirri grunnlestrarhæfni sem leitast var eftir, þ.e. þeir stóðust ekki hæfniþrep 2.

57% drengja á Suðurlandi skorti einnig þessa grunnhæfni í lestri og sama hlutfall drengja var á Vestur- og Norðvesturlandi. Þá náðu 50% drengja á Austur- og Norðausturlandi ekki þessum markmiðum. Í nágrenni Reykjavíkur skorti 42% drengja þessa grunnhæfni og 41% í Reykjavík

Svipað mynstur má sjá hjá stúlkum, sem stóðu sig þó almennt betur en drengir á læsisprófinu.

Enginn landshluti á pari við OECD-meðaltal

Á heildina litið náðu 51% nemenda á Suðurnesjum ekki settu hæfniviðmiði, 48% á Suðurlandi, 46% á Austur- og Norðausturlandi og 44% á Vestur- og Norðurlandi.

Á höfuðborgarsvæðinu er sagan önnur en þar skortir enn 35% reykvískra nemenda ekki grunnhæfni og 35% nemenda í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Á engum landshluta náði hlutfall nemenda með afburðarhæfni yfir meðaltali OECD-ríkja (7%). Hæsta hlutfallið er þó í Reykjavík þar sem 4% nemenda höfðu afburðarhæfni í lestri.

Um 35% nemenda í Reykjavík og 36% í nágrenni Reykjavíkur náðu ekki settu hæfniviðmiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert