Samskiptum ábótavant: „Síðan tók við óvissa“

Guðjón, eigandi Katlatrack, ræddi við blaðamann í Vík.
Guðjón, eigandi Katlatrack, ræddi við blaðamann í Vík. mbl.is/Hákon

Samskipti almannavarna og Veðurstofu Íslands við ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi hefur verið ábótavant í tengslum við jökulhlaupið í Skálm.

Þetta segir Guðjón Guðmundsson, eigandi ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­isins Katlatrack, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hans býður upp á ferðir í íshell­a í Kötlu­jökli. 

Gríðar­stórt jök­ul­hlaup flæddi í far­veg Skálm­ar aust­an Mýr­dals­jök­uls upp úr há­degi á laugardag og olli miklu tjóni á hring­veg­in­um við Skálm­ar­brú. Guðjóni fannst erfitt að geta ekki veitt viðskiptavinum svör þegar hlaupið hófst í gær og rýma þurfti svæðið.

Vegurinn er enn lokaður að hluta, enda er hann skemmdur á um 700 metra kafla. 

Flóðhætta? Gasmengun?

„Það var mjög ábótavant fannst okkur – upplýsingagjöfin frá almannavörnum og Veðurstofunni. Hvað væri að gerast og hvort að það yrðu lokanir út þá daginn. Er gasmengun? Eru þeir að spá í flóðahættu?“ segir Guðjón.

„Við höfum svolítið þurft að lesa þetta í fjölmiðlum og við höfum kallað eftir því að eiga betra samtal í framtíðinni,“ segir ferðaþjónninn í samtali við blaðamann í Vík

„Það er auðvitað viðskiptavinurinn sem er að heimsækja okkur sem á endanum líður fyrir það að fá ekki svör um það hvernig hann á að haga sínum ferðalögum.“

Erfitt að geta ekki veitt svör

Um 30 kílómetra langur kafli er lokaður frá Vík í Mýrdal og upp að afleggjara að Meðallandsvegi. Katlatrack fer með ferðamenn í skoðunarferðir í íshella í Kötlujökli en vegna lokana þá er viðskiptavinum boðið upp á buggy-bílaferðir, sem Katlatrack býður einnig upp á.

„Við rýmdum jökulinn í gær, fengum tilkynningu um tvöleytið og þá kölluðum við alla heim. Síðan tók við óvissa. Margir í sumarfríum þannig það var lítið um svör,“ segir hann.

Hann segir erfitt fyrir þá að geta ekki veitt viðskiptavinum svör, sem eru eðli málsins samkvæmt með margar spurningar þegar svona atburður gerist.

Lentu í veseni með hótelgistingu

Hann segir að eftir hádegi í gær hafi þurft að fresta nokkrum ferðum og í dag fyrir hádegi þá hafi verið um 30-40 manns sem voru mætt í Vík og ætluðu í ferðir.

„Við reynum að aðstoða þau með að finna eitthvað annað að gera, annað hvort hjá okkur eða einhverjum öðrum. Við erum ekkert óvön því að lenda í svona lokunum, það eru oft lokaðir vegir á veturna þannig við erum með ágætis verklag í kringum það.“

Er fólk ekki að lenda í veseni með hótelgistingu?

„Jú það var svolítið um það í gær og við vorum að hjálpa fólki að finna pláss hérna út um sveitir Fólk var að fara á Hvolsvöll og Hellu og svo var auðvitað talsvert af fólki sem var á leiðinni til okkar en var fast á Klaustri,“ segir hann.

Verið er að gera við Skálmabrú og þjóðveginn.
Verið er að gera við Skálmabrú og þjóðveginn. mbl.is/Hákon

„Svo sjáum við það í fjölmiðlum“

Hann viðurkennir aðspurður að fyrirtækið verði fyrir fjárhagslegu tjóni þegar svona atburður gerist en „þessi bransi er sveiflukenndur,“ segir hann. Þegar starfsemin er að miklu leyti við Kötlu þá sé viðbúið að náttúran láti í sér heyra. Fyrst og fremst skipti öryggi fólks máli.

En aftur að samskiptum við yfirvöld. Í morgun fékk Guðjón að vita að stjórnvöld myndu funda fyrir hádegi og í kjölfar ættu að fást svör svör sem hægt væri að koma á framfæri til viðskiptavina.

„En svo sjáum við það í fjölmiðlum að sá fundur átti sér stað klukkan tvö. Þá var þetta útséð og þá ákváðum við bara að fresta öllu ferðum og láta fólk vita svo það gæti hagað sínum ferðum,“ útskýrir ferðaþjónninn.

„Það hefði verið gott að eiga þetta samtal.“

Bærinn samstilltur

Hann segir að í framtíðinni þurfi samtalið að vera meira.

„Ferðaþjónustan hér er stór og sterk og bærinn er samstilltur í því að veita góða þjónustu. Við sjáum það á fólkinu hvað það er allir eru tilbúnir að leggjast á eitt,“ segir hann.

„Björgunarsveitarfólkið hér er óþreytandi í því að standa þessa lokunarpósta, hvort sem það eru snjóstormar á vetri eða lokunum eins og þessum. Þannig það eru allir að vinna að því sama, fyrsta lagi öryggið en eins líka að fólk fari sælt og brosandi frá okkur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka