Sex hektara tún handónýtt eftir jökulhlaupið

Gottsveinn Eggertsson, bóndi í Holti með afabarninu.
Gottsveinn Eggertsson, bóndi í Holti með afabarninu. mbl.is/Hákon

Bóndi í Álftaveri segir að sex hektara tún í sinni eigu sé „gjörsamlega ónýtt“ eftir jökulhlaupið í Skálm austan Mýrdalsjökuls í gær. Sennilega hafi eitthvað sauðfé einnig lent í hlaupinu.

Gottsveinn Eggertsson, bóndi í Holti í Álftaveri, frétti af hlaupinu frá kunningjafólki í gær.

„Það vildi þannig til að það var kunningi fólks sem að var á ferðinni rétt við Skálmina sem lét okkur vita að það væri orðið ískyggilega mikið vatn þarna,“ segir Gottsveinn í samtali við blaðamann á vettvangi.

Bóndinn segist hafa kíkt á svæðið um þrjúleitið í gær og þá væri hlaupið farið að réna. Hann segist ekki hafa séð svona áður.

„Gjörsamlega ónýtt“

„Ummerkin eru auðvitað rosaleg. Þetta hefur farið hérna á sex hektara tún hjá okkur, sem er gjörsamlega ónýtt eftir þetta,“ segir Gottsveinn.

„Það er bæði jökulfor og sandur á því túni. Svo eru þarna girðingar líka sem að fóru og þetta er kannski kílómeter sem er ónýtur í töluvert stórri girðingu.“

Hann segir túnið hafa verið notað fyrir heyskap fyrir mjólkurkýrnar aðallega. Búið hafi verið að slá það áður í sumar og að áætlað hafi verið að slá það aftur um miðjan ágúst. en það verði nú alls ekki af því.

„Þetta er ekki stór rulla af öllum heyskapnum, ég held að það bjargist, en auðvitað er þetta tjón. Það er búið að bera áburð á túnið og kosta til þess og annað.“

Gefið að eitthvað sauðfé hefur lent í hlaupinu

Bóndinn á kýr, sauðfé, hross og geldneyti á bænum.

„Það er gefið að eitthvað að sauðfé hefur lent í þessu hlaupi, það gæti alveg eins verið frá okkur,“ segir hann. 

„Við höfum ekki upplifað svona hlut þetta nærri okkur hér, en þetta er samt óttalegt smáræði miðað við Kötlugos,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert