Sex hektara tún handónýtt eftir jökulhlaupið

Gottsveinn Eggertsson, bóndi í Holti með afabarninu.
Gottsveinn Eggertsson, bóndi í Holti með afabarninu. mbl.is/Hákon

Bóndi í Álfta­veri seg­ir að sex hekt­ara tún í sinni eigu sé „gjör­sam­lega ónýtt“ eft­ir jök­ul­hlaupið í Skálm aust­an Mýr­dals­jök­uls í gær. Senni­lega hafi eitt­hvað sauðfé einnig lent í hlaup­inu.

Gott­sveinn Eggerts­son, bóndi í Holti í Álfta­veri, frétti af hlaup­inu frá kunn­ingja­fólki í gær.

„Það vildi þannig til að það var kunn­ingi fólks sem að var á ferðinni rétt við Skálm­ina sem lét okk­ur vita að það væri orðið ískyggi­lega mikið vatn þarna,“ seg­ir Gott­sveinn í sam­tali við blaðamann á vett­vangi.

Bónd­inn seg­ist hafa kíkt á svæðið um þrjú­leitið í gær og þá væri hlaupið farið að réna. Hann seg­ist ekki hafa séð svona áður.

„Gjör­sam­lega ónýtt“

„Um­merk­in eru auðvitað rosa­leg. Þetta hef­ur farið hérna á sex hekt­ara tún hjá okk­ur, sem er gjör­sam­lega ónýtt eft­ir þetta,“ seg­ir Gott­sveinn.

„Það er bæði jök­ul­for og sand­ur á því túni. Svo eru þarna girðing­ar líka sem að fóru og þetta er kannski kíló­meter sem er ónýt­ur í tölu­vert stórri girðingu.“

Hann seg­ir túnið hafa verið notað fyr­ir heyskap fyr­ir mjólk­ur­kýrn­ar aðallega. Búið hafi verið að slá það áður í sum­ar og að áætlað hafi verið að slá það aft­ur um miðjan ág­úst. en það verði nú alls ekki af því.

„Þetta er ekki stór rulla af öll­um heyskapn­um, ég held að það bjarg­ist, en auðvitað er þetta tjón. Það er búið að bera áburð á túnið og kosta til þess og annað.“

Gefið að eitt­hvað sauðfé hef­ur lent í hlaup­inu

Bónd­inn á kýr, sauðfé, hross og geld­neyti á bæn­um.

„Það er gefið að eitt­hvað að sauðfé hef­ur lent í þessu hlaupi, það gæti al­veg eins verið frá okk­ur,“ seg­ir hann. 

„Við höf­um ekki upp­lifað svona hlut þetta nærri okk­ur hér, en þetta er samt ótta­legt smá­ræði miðað við Kötlugos,“ seg­ir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert