„Skemmtilegasta starf sem ég hef unnið“

María Rún hitti blaðamenn á Hótel Örk í Hveragerði.
María Rún hitti blaðamenn á Hótel Örk í Hveragerði. mbl.is/Brynjólfur Löve

Hjón­in María Rún Þor­steins­dótt­ir og Heiðar Ingi Heiðars­son ákváðu að láta staðar numið í rekstri Cross­fit Hengils í Hvera­gerði um ára­mót­in eft­ir að hafa rekið stöðina við góðan orðstír í ell­efu ár. María seg­ir til­finn­ing­una að skilja við stöðina hafa verið skrítna en að þetta hafi verið það rétta í stöðunni fyr­ir þau hjón­in.

María ræðir um stofn­un Cross­fit Hengils, gott gengi stöðvar­inn­ar og þá ákvörðun að láta rekst­ur­inn í hend­ur annarra í nýj­asta þætti Hring­ferðar­inn­ar sem tek­inn var upp á Hót­el Örk í Hvera­gerði.

„Maður­inn minn er lögga og kynnt­ist cross­fit í kring­um það. Hann var bara óþolandi og gaf sig ekki fyrr en ég prófaði, ég ætlaði aldrei að prófa þetta. Við flytj­um síðan úr bæn­um í Hvera­gerði, vor­um sem sagt byrjuð að æfa í Cross­fit Reykja­vík, og þá var ekk­ert hér, eng­in cross­fit-stöð, bara lít­il lík­ams­rækt­ar­stöð þar sem þú get­ur ekki gert sam­bæri­leg­ar hreyf­ing­ar. Við vor­um búin að sanka að okk­ur ein­hverj­um búnaði og vor­um bara úti garðinum heima. Það fékk smá at­hygli og það bætt­ist í hóp­inn, einn og einn vin­ur sem vildi vera með okk­ur,“ seg­ir María.

Mjög stór­tæk í fyrstu

Í kjöl­farið fóru þau að líta í kring­um sig eft­ir hús­næði sem gæti hentað und­ir cross­fit-æf­ing­ar og sáu fyrst fyr­ir sér að þau gætu bara verið þar að æfa með kannski nokkr­um vin­um, mesta lagi 20 manns. Svo fór að þau fengu aðstöðu í kjall­ar­an­um í íþrótta­hús­inu. „Á sama tíma vor­um við líka mjög stór­tæk, tímatafl­an var fá­rán­leg miðað við að ætla að vera með 20 manns í stöðinni,“ seg­ir María sem kveðst ekki hafa ætlað vinna í stöðinni, en hún var þá kenn­ari í grunn­skól­an­um í Hvera­gerði.

„Við feng­um Björg­vin Karl, bróður manns­ins míns, og hann var far­inn að þjálfa sex tíma á dag á frek­ar stutt­um tíma,“ seg­ir María, en þess má geta að Björvin Karl Guðmunds­son skær­asta stjarna í ís­lenska cross­fit-heim­in­um og er á leið á sína ell­eftu Heims­leika í cross­fit í Banda­ríkj­un­um í næsta mánuði.

Með 300 iðkend­ur þegar mest var

Eft­ir um ár seg­ist María hafa séð að hún þyrfti að koma meira inn í rekst­ur­inn því maður­inn henn­ar og vin­ur þeirra, sem átti stöðina í upp­hafi ásamt eig­in­konu sinni, eru lög­reglu­menn og gátu ekki sinnt allri þjálf­un­inni sam­hliða lög­reglu­starf­inu. María var þó ekki með þjálf­ara­mennt­un en dreif sig í að bæta úr því, lærði styrkt­arþjálf­un sem og eig­in­lega cross­fit-þjálf­un.„Síðan þá hef ég borið þung­ann af þessu,“ seg­ir María.

„Þegar mest var, bara kort­er í heims­far­ald­ur, vor­um við með rúm­lega 300 iðkend­ur sem voru að mæta, auðvitað eru ein­hverj­ir sem eru bara „styrkt­ar­fé­lag­ar“ en það er þó miklu minna í þess­ari grein,“ seg­ir María, en bæði Hver­gerðing­ar og Sel­fyss­ing­ar æfðu í stöðinni.

Vin­sæld­ir cross­fit hafa vaxið mikið á Íslandi und­an­far­in tíu til fimmtán ár og hef­ur Ísland getið af sér marg­ar heims­fræg­ar stjörn­ur í grein­inni. Björg­vin Karl, mág­ur Maríu, fer þar fremst­ur í flokki ásamt Katrínu Tönju Davíðsdótt­ur, Annie Mist Þóris­dótt­ur, Ragn­heiði Söru Sig­munds­dótt­ur og Þuríði Helga­dótt­ur, svo ein­hverj­ar séu nefnd­ar.

Eins og María lýs­ir því hafði hún haft lít­inn áhuga á því að hreyfa sig hreyf­ing­ar­inn­ar vegna áður en hún kynnt­ist cross­fit. Hún hafði helst stundað lík­ams­rækt eft­ir að hún komst á full­orðins­ár til þess að grenna sig. En þegar hún fann cross­fit var ekki aft­ur snúið.

„Það var bara eitt­hvað, eins og marg­ir lýsa þessu, mér fannst þetta allt í einu skemmti­legt. Að vera sterk, mér fannst það bara skemmti­legt. Og ég átti til­tölu­lega auðvelt með að læra þetta,“ seg­ir María.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni á helstu hlaðvarps­veit­um og lesa í heild í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert