Göngumaður steig í hver og brenndi sig á fæti

„Okkar fólk er rétt ókomið að honum,“ segir fulltrúi Landsbjargar.
„Okkar fólk er rétt ókomið að honum,“ segir fulltrúi Landsbjargar. mbl.is/Guðlaugur J. Albertsson

Björgunarsveitarfólk er komið að göngumanni sem er talinn hafa brennst á fæti eftir að hafa stigið í hver í Kerlingarfjöllum í dag.

Hreggviður Sím­on­ar­son hjá bakvakt aðgerðasviðs Land­helg­is­gæsl­unn­ar staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Nú sé unnið að því að koma manninum á stað þar sem þyrlan kemst að en slæmt skyggni er á svæðinu sem gerir þyrluáhöfn erfiðara fyrir að staðsetja manninn.

Búið er að staðsetja manninn en röng staðsetning var gefin upp í upphafi, að sögn björgunarsveita.

Slæmt skyggni

„Þyrlan fór upphaflega á uppgefna staðsetningu og sá ekki neitt,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is. 

Nú sé aftur á móti vitað hvar maðurinn er niðurkominn en óljóst hvort þyrlan komist að honum þar sem slæmt skyggni er á svæðinu.

Björgunarsveitir úr uppsveitum Árnessýslu hafa verið kallaðar út og hafa nú nálgast manninn á láði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert