Stunginn í háls með blýanti

Verkefni lögreglu eru fjölbreytt.
Verkefni lögreglu eru fjölbreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður úrræðis fyrir börn með margþættar þarfir var stunginn í hálsinn af skjólstæðingi með blýanti. Betur fór en á horfðist.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Dag­bók­in nær til verk­efna lög­reglu frá klukk­an 17 í gær til 05 í morg­un.

Þá var lögreglu tilkynnt um umferðarslys og árekstur þar sem ökumaður ók í veg fyrir annan en ók síðan í burtu af vettvangi. Hann fannst skömmu síðar í umferðinni og reyndist ölvaður. Hann var handtekinn og vistaður í klefa.

Kýldi leigubílstjóra

Lögreglu var einnig tilkynnt um tvo einstaklinga sem var ekið í Breiðholt í leigubifreið en greiddu ekki fyrir farið. Í dagbókinni segir að annar þeirra hafi hlaupið úr bifreiðinni og leigubílstjórinn fylgt honum eftir. Þá hafi farþeginn kýlt leigubílstjórann og haldið áfram að hlaupa í burtu. Málið er til rannsóknar.

Á Miklubraut var tilkynnt um kyrrstæða bifreið án hættuljósa sem olli hættu. Þegar lögreglu bar að garði var ökumaðurinn steinsofandi í bifreiðinni, sem var í gangi. Lögreglumenn þurftu að hrista bifreiðina til þess að vekja hann, svo aflæsti hann bifreið sinni. Ökumaðurinn var verulega ölvaður og því handtekinn og vistaður í klefa.

Þá voru þó nokkrir handteknir fyrir að hafa ekið ölvaðir eða undir áhrifum vímuefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert