Besti dagur sumarsins í Reykjavík um helgina

Ferðalangar ættu að líta til Reykjavíkur fyrir besta veðrið um …
Ferðalangar ættu að líta til Reykjavíkur fyrir besta veðrið um helgina. Ljósmynd/Blika.is

Spáð er 18 stiga hita í Reykjavík á laugardag og segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, í samtali við mbl.is, að mögulega verði laugardagurinn besti dagur sumarsins í Reykjavík. 

„Mögulega verður besta veðrið á höfuðborgarsvæðinu á laugardag svona samanlagt ef þú horfir á vind, hita og líkur á þurru veðri.“

Þá spáir tjaldvefur Bliku því að besta tjaldveðrið verði í Reykjavík um helgina og þar á eftir kemur tjaldvæðið í Selvogi. 

Sérstök veðurspá

Einar segir að veðurspáin fyrir landið um verslunarmannahelgina sé heldur sérstök. Það máð rekja til óvenju djúprar lægðar sem verður á ferðinni sunnanlands og austantil á landinu.  

„Með þessari lægð verður allhvass vindur á miðvikudag og fimmtudag. Þá fara líka skil þessara lægðar norður yfir landið með rigningu víðar um land. En þessi sama lægð færir okkur, undir helgina, nýjan skammt af röku og hlýju lofti og þá mun rigna talsvert suðaustan og austanlands á föstudaginn.“

Þá er því spáð að það verði norðaustanátt á laugardag á Norðurlandi og á Vestfjörðum en þó með hlýjum vindi, sem er mjög sérstakt að sögn Einars. Hann segir að hiti á Vestfjörðum og á Snæfellsnesi gæti farið upp í 20 stig í þessum blæstri. 

Óvissa með Vestmannaeyjar

Í Vestmannaeyjum er spáð smá blæstri á fimmtudag og á föstudag. Þá gæti rigningin á suðausturlandi náð Vestmannaeyjum á laugardag. Einar að enn sé óvissa um veðrið í Eyjum um helgina. 

Einar segir að stóra myndin um veðrið um helgina liggi fyrir og ólíklegt er að það taki miklum breytingum. Þá bendir hann fólki á að skoða staðspárnar bæði á vef Veðurstofu Íslands og á Bliku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert