Halla greiddi rúmar sjö milljónir fyrir bílinn

Halla og Björn greiddu 7.280.000 kr. fyrir nýja bílinn sinn …
Halla og Björn greiddu 7.280.000 kr. fyrir nýja bílinn sinn sem hugsaður er til persónulegra nota. Ljósmynd/Brimborg

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands og Björn Skúlason, verðandi forsetaherra, greiddu 7.280.000 kr. fyrir Volvo XC30 bifreiðina. 

Frá þessu greinir Halla í færslu á Facebook. Þar segir að þau hjónin hafi verið á Toyota Yaris árgerð 2012 síðustu árin en þar á undan hafi þau átt Volvo í 12 ár. Nýja bifreiðin sé hugsuð til persónulegra nota, sérstaklega fyrir maka forseta. 

„Líkt og kemur fram á vefsíðu umboðsins er verð þessara rafbíla á bilinu 6-8 milljónir. Við keyptum minnstu týpuna. Við fengum kr. 549.127 afslátt frá listaverði vegna endurtekinna kaupa og staðgreiðslu, sem mér reiknast til að sé um 7.5% afsláttur frá ásettu verði.“

Ekki um sérafsláttarkjör að ræða

Halla segir afsláttinn sambærilegan því sem öðrum kaupendum býðst sem uppfylla sömu skilyrði og í takt við þau kjör sem þau hjónin hafa fengið við önnur bílakaup hjá umboðinu. 

„Aldrei var um að ræða sérstök afsláttarkjör gegn því að auglýsa bílakaupin opinberlega. Það var gert án okkar vitundar og samþykkis eins og einnig hefur komið fram og var leiðrétt um leið og í ljós kom.“

Egill kemst ekki í móttökuna 

Þá segir Halla frá því að Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hafi verið á gestalista í Smiðju löngu áður en til bílakaupanna kom vegna kynna og stuðnings við framboðið. Hann hafi þó tilkynnt Höllu það við bílakaupin að hann kæmist ekki í móttökuna. 

„Við hjón gerum okkur fyllilega grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir þeirri stöðu sem okkur hefur hlotnast. Okkur er ljúft og skylt að verða við óskum um gagnsæi og gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla traust í samfélaginu.“

Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert