Helgi verði leystur frá störfum tímabundið

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari lét umdeild orð falla á dögunum …
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari lét umdeild orð falla á dögunum um mið-austurlenska innflytjendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissaksóknari hefur óskað eftir því að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari verði tímabundið leystur frá störfum vegna kæru sem hann á yfir sér frá hjálparsamtökunum Solaris.

Stjórn hjálp­ar­sam­tak­ana Solar­is kærði Helga vegna um­mæla sem hann lét fjalla um innflytjend­ur, flótta­fólk og sam­tök­in sömu­leiðis. Stjórnin tilkynnti ummælin einnig til ríkissaksóknara með tilliti til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og almennra hegningarlaga.

Nú hefur Sigríður Friðjónsdóttir lagt til við dómsmálaráðherra að Helgi verði tímabundið leystur frá störfum, samkvæmt umfjöllun Vísis sem segir tillöguna tengjast kærunni.

Blaðamaður mbl.is hefur hvorki náð sambandi við Helga Magnús né fengið staðfestingu frá Sigríði við vinnslu fréttar.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eina sem stoppar þá er hnefinn“

Helgi hef­ur rætt við fjöl­miðla vegna máls Mohamad Th. Jóhannessonar, áður Kourani, sem hef­ur haft í hót­unum við Helga og fjölskyldu hans. Mohamad var nýlega dæmdur í átta ára fangelsi.

„Það eina sem stoppar þá er hnefinn, valdbeiting,“ sagði Helgi um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum þegar hann var í viðtali við Vísi um miðjan mánuð.

Ummælin vöktu sterk viðbrögð. Oddur Ástráðsson lög­maður sagði orðræðuna ala á sundr­ung og for­dóm­um.

Helgi lét þá einnig hörð ummæli falla um Odd.

Í Facebook-færslu sagði hann lögmanninn, í samvinnu við Solaris, „berjast hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök“.

Solaris telur að Helgi hafi gert sig vanhæfan með ummælunum. „Um er að ræða háttsemi sem varpar rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert