Lögreglan kom að fólkinu í gámunum

Einstaklingarnir sem lögreglan handtók í nótt voru af báðum kynjum …
Einstaklingarnir sem lögreglan handtók í nótt voru af báðum kynjum og á fertugsaldri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það allavega virðist allavega vera þannig að það sé tiltölulega auðvelt að koma í þessa gáma,“ segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um þjófnað sem átti sér stað í nótt.

mbl.is greindi frá því í morgun að nokkrir einstaklingar hefðu verið handteknir í nótt eftir að hafa verið að stela dósum úr dósagám.

Segir Unnar að hann muni ekki sjálfur eftir mörgum svipuðum málum sem ratað hafa á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna mánuði en að þau komi öðru hvoru fyrir. Nefnir Unnar að svo virðist sem að auðvelt aðgengi sé að gámunum.

„Þetta er spurning hvort það eigi að fara í einhver útfærsluatriði eða setja upp einhverja vöktun,“ segir aðalvarðstjórinn.

Verða yfirheyrð seinna í dag

Upplýsir Unnar í samtali við mbl.is að einstaklingarnir hafi verið þrír, tveir karlmenn og ein kona, og séu allir á fertugsaldri og erlendir ríkisborgarar.

„Þau voru inn í gámunum þegar við komum að þeim eftir að hafa fengið tilkynningu frá vegfaranda. Þau voru líka í fatagámum að stela. Þannig við erum með það líka,“ segir Unnar.

Einstaklingarnir eru nú í haldi lögreglunnar og segir Unnar að þeir verði yfirheyrðir þegar líða tekur á daginn og svo sleppt.

Eiga þeir þá mögulega von á sekt nema að þeir hafi gerst brotlegir áður, en verður þeim þá gerð refsing fyrir dómi.

Þó Unnar segi lögreglu ekki vera með mörg sambærileg mál á borði sínu nefnir hann þó að lögreglan hafi heyrt af fleiri tilvikum um dósaþjófnað úr gámum. Telur hann þá mögulegt að fleiri tilkynningar um slíkan þjófnað gætu hafa borist lögreglunni utan Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert