Mótmælt á Íslandi: „Venesúela er ekki öruggt land“

Nicolas Maduro, forseti Venesúeal, hlaut endurkjör í gær. „Kosningasvik“ stendur …
Nicolas Maduro, forseti Venesúeal, hlaut endurkjör í gær. „Kosningasvik“ stendur á plakati einnar Venesúelskrar konu. mbl.is/Hákon

Venesúelamenn á Íslandi efndu til hljóðlátra mótmæla fyrir utan Hallgrímskirkju í dag vegna endurkjörs forsetans Nicolas Maduro í heimalandi þeirra.

Venesúelabúar vara við yfirvofandi fólksflutningabylgju sem gæti farið af stað í áframhaldandi valdatíð Nicolas Maduros.

Samkvæmt útgefnum niðurstöðum kosninga náði forseti landsins Maduro endurkjöri í gær, þvert á það sem útgönguspár og skoðanakannanir bentu til.

Hann hefur nú verið forseti í rúman áratug, eða frá 2013. Stefnir í að hann sitji í embætti til ársins 2031.

„Venesúela þarf alþjóðlega hjálp,“ stendur ritað á plakat sem einn …
„Venesúela þarf alþjóðlega hjálp,“ stendur ritað á plakat sem einn mótmælandi heldur uppi. „Svikari“ stendur á öðru plakati. mbl.is/Hákon

Mikill fólksflótti í valdatíð forsetans

Samkvæmt tilkynningu frá No Borders eru kröfur mótmælanna m.a að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á „þeim hörmulegu afleiðingum sem þessar kosningar fela í sér“.

Mik­ill fólks­flótti hef­ur verið frá Venesúela í valdatíð Maduros og hafa sumir Venesúelamenn flúið alla leið til Íslands. Mótmælendurnir vara nú einnig við „yfirvofandi fólksflutningabylgju sem gæti átt sér stað“.

Rauð málnigin á höndum mótmælenda á að tákna blóð á …
Rauð málnigin á höndum mótmælenda á að tákna blóð á höndum Maduros. mbl.is/Hákon

„Venesúela er ekki öruggt land“

Þess er einnig krafist að ríkisstjórn Íslands og á Norðurlöndunum gefi frá sér opinberar yfirlýsingar um niðurstöður kosninganna.

„Venesúelskir hælisleitendur hér á landi lifa í stöðugum ótta að þeim verði vísað brott til lands þar sem ekkert bíður þeirra nema dauðinn,“ skrifa No Borders.

Rauði liturinn á einnig að tákna lögregluofbeldi sem mótmælendur í …
Rauði liturinn á einnig að tákna lögregluofbeldi sem mótmælendur í landinu eru beittir. mbl.is/Hákon

Stjórnarandstaðan hafnar niðurstöðunum

Yfir­kjör­stjórn í Venesúela gaf út að Maduro hefði fengið 51,2% greiddra at­kvæða, en keppinautur hans, Ed­mundo Gonza­lez Urrutia, hefði fengið 44,2%.

Stjórn­ar­andstaðan í landinu hafn­ar niðurstöðunum og seg­ir Urrutia vera ný­kjör­inn for­seta með 70% at­kvæða.

Fulltrúar fjölda ríkisstjórna um allan heim setja spurningamerki við kjörið og kalla eftir því að atkvæðin verði endurtalin af óháðum aðilum. Aðrir óska Maduro til hamingju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert