Sauðfé líklega orðið jökulhlaupinu að bráð

Jóhannes Gissurarson, bóndi í Álftaveri, ræddi við mbl.is um áhrif …
Jóhannes Gissurarson, bóndi í Álftaveri, ræddi við mbl.is um áhrif jökulhlaupsins. mbl.is/Hákon

Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum í Álftaveri, telur rökrétt að halda að eitthvað sauðfé hafi orðið jökulhlaupinu að bráð, sem hófst í Skálm á laug­ar­dag.

Hann segir jökulhlaup ekki ný af nálinni á þessum slóðum en að þetta hafi verið stórt.

„Þetta er ekkert nýtt en þetta er með því allra stærsta á undanförnum árum. Ég myndi halda að þetta væri síst minna en Múlakvíslarhlaupið 2011, ef ekki meira. Þetta er gríðarlegt flæmi sem dreifist um fyrir ofan þjóðveg 1,“ segir hann.

Hér má sjá hvar Skálmarbrú er og hvar Herjólfsstaðir eru.
Hér má sjá hvar Skálmarbrú er og hvar Herjólfsstaðir eru. Skjáskot/map.is

Kemur í ljós í haust

Jökulhlaupið náði ekki yfir tún Jóhannesar en hann á þó sauðfé á svæðinu sem flæddi yfir.

Fór Jóhannes með 150 kindur og lömb á þessar slóðir fyrir mánuði síðan. Hann fór í gær að kanna hvort hann sæi sauðfé í nauðung.

Jóhannes segir ómögulegt að vita með vissu hvort féð hafi sloppið fyrr en í smölun í haust. Hann er þó hræddur um að fé hafi verið á því svæði sem hlaupið fór yfir.

„Mér finnst rökrétt að halda það að hafi verið að einhverju leyti slíkar aðstæður sem urðu þess valdandi að það tapaðist [sauðfé],“ segir hann.

Áður komið minni hlaup í Leirá

Bendir hann á að frá 2014 hafi vatn úr Leirá fundið sér farveg í Skálm. Upptök hlaupsins komi úr jöklinum í Leirá, sem svo renni í Skálm.

Hann nefnir að áður hafi komið minni hlaup í Leirá en með þeim hlaupum hafi farvegurinn í Leirá fyllst. Þá myndaðist nýr farvegur sem rennur í Skálm.

„Það sem gerist, þrátt fyrir að við værum í stöðugu sambandi við Landgræðslu, Vegagerð og Almannavarnir og þær stofnanir sem manni datt í hug að gætu hjálpað í þessu máli, þá gerðist ekki neitt,“ segir Jóhannes og bætir við að Skálmarbrú hafi ekki verið gerð til að standast svona kröftug hlaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert