Skjálfti upp á 3,2 við Eldey

Algengt er að skjálftar mælist við Eldey.
Algengt er að skjálftar mælist við Eldey. Ljósmynd/Páll Stefánsson

Skjálfti á stærðinni 3,2 mældist nálægt Eldey úti á Reykjaneshrygg í nótt. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekkert óeðlilegt við skjálftann og undirstrikar að hann tengist ekkert atburðum í eða við Grindavík. 

Auk þessa skjálfta mældust aðrir skjálftar á svæðinu en Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir um að ræða algenga skjálfta á flekaskilunum. 

„Það er algengt að það verði skjálftar þarna úti en alltaf þegar skjálftar fara yfir þrjá að stærð þá kemur stjarna í kortið sem vekur athygli,“ segir Bjarki og áréttir að ekki sé um óeðlilega skjálfta að ræða. 

Dregið úr skjálftavirkni við Mýrdalsjökul 

Auk skjálfta við Eldey hafa mælst nokkrir skjálftar við Mýrdalsjökul síðasta sólarhringinn. Sá stærsti mældist í gærkvöldi, 2,3 að stærð. Að sögn Bjarka hefur skjálftavirkni á svæðinu síðasta sólarhringinn þó verið lítil. 

„Skjálftarnir sem voru í gær og í morgun voru aðeins sunnar en þeir voru þegar hlaupið byrjaði en þeir eru innan sama vatnasviðs,“ útskýrir Bjarki og ítrekar að dregið hafi úr skjálftavirkni. 

Til viðbótar segir Bjarki að bæði rafleiðni og vatnshæð í Skálm hafi lækkað. Það sé því allt á réttri leið þó Veðurstofan haldi áfram að fylgjast grannt með gangi mála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert