Sólskinsstundir í júlí 62 stundum undir meðallagi

Sólskinsstundir á höfuðborgarsvæðinu 62 stundum undir meðallagi.
Sólskinsstundir á höfuðborgarsvæðinu 62 stundum undir meðallagi. mbl.is/Árni Sæberg

Sólin hefur skinið í 104,5 klukkustundir á höfuðborgarsvæðinu það sem af er júlímánuði. Er þetta 62 sólskinsstundum undir meðallagi, eða sem nemur sólskini í heila viku undir meðallagi. Þá er þetta sjöundi rigningamesti júlímánuður á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi mælinga.

Frá þessu greinir Trausti Jónsson, veðurfræðingur, í samtali við mbl.is og bætir við að sólskinsstundir í júlímánuði hafi einungis tuttugu sinnum verið færri síðustu 115 árin. 

Fæstar hafi sólskinsstundirnar verið í júlímánuði árið 1989 þegar þær voru einungis 56, eða rétt helmingurinn af þeim sólarstundum sem hafa verið það sem af er núverandi júlímánuði. Þess ber þó að geta að enn á eftir að taka mið af síðustu þremur dögum mánaðarins. 

Níu sólarlausir dagar 

Þó sólskinsstundir í júlí hafi einungis tuttugu sinnum verið færri á síðustu 115 árum þá er ekki svo langt síðan það gerðist síðast. Var það í júlí árið 2021 þegar sólskinsstundirnar voru einungis 96. Þá voru sólskinsstundir í júlí jafnframt færri árið 2018 og árið 2014, að sögn Trausta.  

„Þetta er ekkert met,“ segir Trausti um lítinn fjölda sólarstunda í yfirstandandi júlímánuði. 

Trausti bætir við að í mánuðinum hafi komið nokkrir dagar þar sem sólin skein töluvert mikið. Sem dæmi hafi hún eiginlega skinið eins mikið og hún gat dagana 6. og 7. júlí, eða meira en 16 stundir. 

Þá hafi sólarstundir verið tæpar 10 stundir þann 20. júlí og 11 þann 15. júlí. 

„En svo hafa líka verið níu alveg sólarlausir dagar,“ útskýrir Trausti. 

Einu sinni rignt meira í júlí á þessari öld

Aðspurður segir Trausti að í ár hafi rignt nokkuð meira í júlímánuði heldur en í meðalári. 

„Ekki alveg tvöfalt meira en næstmesta á þessari öld og ef við förum lengra aftur í tímann þá hefur einungis sjö sinnum rignt meira frá upphafi mælinga.“ Hér ber þó aftur að taka fram að júlímánuði er ekki lokið. 

„Það hefur rignt 86 millimetra sem er svona 41 meira en venjulega. Nærri því tvöfalt og enn nokkrir daga eftir af mánuðinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert