„Þetta er bara ólýsanlegt“

Íris Þórsdóttir ásamt hinum sjálfboðaliða íslenska hópsins, Rachael Bradley.
Íris Þórsdóttir ásamt hinum sjálfboðaliða íslenska hópsins, Rachael Bradley. Ljósmynd/Íris Þórsdóttir

Íris Þórsdóttir er sjálfboðaliði fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í París og segir upplifun sína af því að vera stödd þar alveg einstaka.

„Þetta er eiginlega bara ólýsanlegt, það er bara orðið sem ég get notað yfir þetta,“ segir Íris við blaðamann þegar hún er spurð að því hvernig stemningin sé í París núna.

Hún segist aðallega vera inni í ólympíuþorpinu og það sé eins og að koma inn í aðra veröld, eitthvað sem hún hélt að hún myndi aldrei upplifa.

„Ég sá fyrir mér að upplifa Ólympíuleikana einhvern tímann sem áhorfandi en að labba hérna um ólympíuþorpið og mæta stórstjörnum, það er ólýsanlegt,“ segir Íris en hún sótti um til ÍSÍ að fá að vera sjálfboðaliði á þessum Ólympíuleikum fyrir einu og hálfu ári.

Mætti frægri spretthlaupakonu

Fyrsta daginn sinn í ólympíuþorpinu segist Íris hafa mætt mjög frægri spretthlaupakonu, Shelly-Ann Fraser-Pryce frá Jamaíka, en hún er tvöfaldur ólympíumeistari og fimmfaldur heimsmeistari í 100 metra spretthlaupi.

„Ég labbaði framhjá henni og missti andann í nokkrar sekúndur. Ég var að pæla í að hlaupa til hennar og segja eitthvað en hætti við og svo var augnablikið liðið. Hún er rosalega flott og nú er ég bara að bíða eftir að sjá fleiri svona kanónur.“

Þeir sem vilja fylgjast með henni í París er bent á Instagram reikning hennar @iristhors.

Nánar er rætt við Írisi í Morgunblaðinu í dag.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert