Bæjarstjóri Reykjanesbæjar telur tímabært að endurskoða ákvæði sem gerir Grindvíkingum kleift að hafa skráð aðsetur á öðrum stað en lögheimili.
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá 10.júlí hafa 805 Grindvíkingar flutt í Reykjanesbæ eftir hamfarirnar síðasta haust en þar af hafa aðeins 311 fært lögheimili sitt í bæinn.
Það þýðir að 494 Grindvíkingar sem búsettir eru í Reykjanesbæ greiða ekki útsvar til sveitafélagsins þrátt fyrir að sækja þangað flesta þjónustu með tilheyrandi kostaði fyrir bæjaryfirvöld.
Í desember síðastliðnum voru samþykkt lög á Alþingi sem fólu í sér heimild til aðsetursskráningar í óviðráðanlegum tilvikum líkt og náttúruhamförum.
Á laugardaginn var rætt við Gunnar Axel Axelsson, sveitastjóra Voga, í Morgunblaðinu þar sem hann lét í ljós þá skoðun að endurskoða þurfi ákvæðið en hann telur forsendurnar fyrir því ekki vera til staðar lengur.
„Í nefndarálitinu kemur fram að tilgangurinn með breytingunni sé fyrst og fremst að gera viðbragðsaðilum kleift að fá lista yfir hvar íbúar séu staðsettir, enda geti slíkt verið afar brýnt til að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri, skipuleggja björgunarstörf og lágmarka eignatjón. Þau sjónarmið eiga augljóslega ekki lengur við í dag, enda fólk almennt búið að koma sér fyrir í öðrum sveitarfélögum. Við höfum kallað eftir því að þessi mál verði skýrð án frekari tafa og lögheimilisskráning færð í rétt horf, enda hefur það veruleg áhrif á rekstrarforsendur okkar sveitarfélags þegar um 10% íbúanna greiða sína skatta og gjöld annars staðar,“ sagði Gunnar Axel.
Hann bætti við að mikilvægt væri að tryggja rekstargrundvöll Grindavíkurbæjar en að með lögunum velti ríkið ábyrgðinni á nágrannasveitafélögin.
Í samtali við mbl.is tekur bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, undir með starfsbróður sínum.
„Við höfum látið í ljós þá skoðun okkar að það þurfi að endurskoða þetta ákvæði sem var sett inn í lögin og við höfum komið þeirri skoðun á framfæri,“ segir Kjartan.
Þá segir hann að bæjarstjórarnir á Suðurnesjum hafi rætt saman um þessi mál: „Við erum að ræða þetta okkar á milli og sveitastjórnir þessara sveitafélaga líka.“