Tímabært að laga lögheimilsskráningu Grindvíkinga

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Aðsend

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar telur tímabært að endurskoða ákvæði sem gerir Grindvíkingum kleift að hafa skráð aðsetur á öðrum stað en lögheimili.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá 10.júlí hafa 805 Grindvíkingar flutt í Reykjanesbæ eftir hamfarirnar síðasta haust en þar af hafa aðeins 311 fært lögheimili sitt í bæinn.

Það þýðir að 494 Grindvíkingar sem búsettir eru í Reykjanesbæ greiða ekki útsvar til sveitafélagsins þrátt fyrir að sækja þangað flesta þjónustu með tilheyrandi kostaði fyrir bæjaryfirvöld.

Breyttar forsendur 

Í des­em­ber síðastliðnum voru samþykkt lög á Alþingi sem fólu í sér heim­ild til aðset­urs­skrán­ing­ar í óviðráðan­leg­um til­vik­um líkt og náttúruhamförum.

Á laugardaginn var rætt við Gunnar Axel Axelsson, sveitastjóra Voga, í Morgunblaðinu þar sem hann lét í ljós þá skoðun að endurskoða þurfi ákvæðið en hann telur forsendurnar fyrir því ekki vera til staðar lengur.

„Í nefndarálit­inu kem­ur fram að til­gang­ur­inn með breyt­ing­unni sé fyrst og fremst að gera viðbragðsaðilum kleift að fá lista yfir hvar íbú­ar séu staðsett­ir, enda geti slíkt verið afar brýnt til að koma nauðsyn­leg­um upp­lýs­ing­um á fram­færi, skipu­leggja björg­un­ar­störf og lág­marka eigna­tjón. Þau sjón­ar­mið eiga aug­ljós­lega ekki leng­ur við í dag, enda fólk al­mennt búið að koma sér fyr­ir í öðrum sveit­ar­fé­lög­um. Við höf­um kallað eft­ir því að þessi mál verði skýrð án frek­ari tafa og lög­heim­il­is­skrán­ing færð í rétt horf, enda hef­ur það veru­leg áhrif á rekstr­ar­for­send­ur okk­ar sveit­ar­fé­lags þegar um 10% íbú­anna greiða sína skatta og gjöld ann­ars staðar,“ sagði Gunnar Axel.

Hann bætti við að mikilvægt væri að tryggja rekstargrundvöll Grindavíkurbæjar en að með lögunum velti ríkið ábyrgðinni á nágrannasveitafélögin.

Ræða málið sín á milli

Í samtali við mbl.is tekur bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, undir með starfsbróður sínum.

„Við höfum látið í ljós þá skoðun okkar að það þurfi að endurskoða þetta ákvæði sem var sett inn í lögin og við höfum komið þeirri skoðun á framfæri,“ segir Kjartan.

Þá segir hann að bæjarstjórarnir á Suðurnesjum hafi rætt saman um þessi mál: „Við erum að ræða þetta okkar á milli og sveitastjórnir þessara sveitafélaga líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert