Tólf hillumetrar af skjölum Katrínar

Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við mbl.is að loknum blaðamannafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra afhenti nýlega Þjóðskjalasafni Íslands um 12 hillumetra skjala úr einkasafni sínu.

Katrín segir um að ræða óflokkuð skjöl allt frá tíma sínum sem varaborgarfulltrúi í kringum 2005 eða 2006 til dagsins í dag. Á þeim tíma hefur Katrín gegnt þingmennsku, formennsku í VG, embætti menntamálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda og nú síðast embætti forsætisráðherra. Segir hún það verkefni svo bíða sín í ágúst að flokka skjölin með aðstoð Þjóðskjalasafnsins.

Safnari í eðli sínu

Segist Katrín vera safnari í eðli sínu og hún hafi geymt ýmsa pappíra. Nú sé kominn tími til að fara í gegnum skjölin og vega og meta hvað eigi að geyma fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. „Mér finnst mikilvægt að sagnfræðingar framtíðarinnar hafi efnivið til að vinna úr þegar þeir fara að skrifa þessa sögu. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að ég tek þetta saman. Ég vil að þetta verði einhvern tímann með tíð og tíma aðgengilegt.“

Katrín segir að hluti skjalanna verði væntanlega lokaður í einhvern tiltekinn tíma eins og gert sé ráð fyrir í lögum um opinber skjalasöfn, en annað er eitthvað sem verður bara opið og einhverju verður væntanlega hægt að farga án mikils skaða. „Þetta er sem sagt í dag allt óflokkað og hefur bara fylgt mér í kössum sem hafa hlaðist upp á þessum árum,“ segir Katrín og bætir við að skjölin fylli tugi kassa. 

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert