Húsnæði leikskólans Brákarborgar, sem tók til starfa fyrir tveimur árum, hefur nú verið lokað vegna byggingagalla sem kom í ljós fyrir skemmstu. Ljóst er að mistök voru gerð í hönnun- og/eða framkvæmd leikskólans en Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar segir að ekki liggi fyrir hver beri ábyrgð.
Hún segir að það verði nú skoðað og hefur Reykjavíkurborg sent öllum verktökum og ráðgjöfum sem komu að verkinu formlegt bréf þar sem tilkynnt er um mögulega hönnunar- og/eða framkvæmdagalla.
Hátt í níu aðilar komu að hönnun, framkvæmd og eftirliti leikskólans. Arkitektúrsstofan Arkís ehf. var aðalhönnuður, Þarfaþing ehf. var aðalverktaki, Arkamon ehf. sá um burðarvirki og Verksýn ehf. fór með eftirlit.
Brákarborg var áður til húsa í Brákarsundi 1 í Laugardal en flutti í ágúst árið 2022 í nýbyggt húsnæði við Kleppsveg 150-152, þar sem kynlífstækjaverslunin Adam og Eva var áður til húsa.
Vígja nýja leikskólabyggingu á morgun (mbl.is)
Ólöf segir að ekki sé komin kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdirnar en gerir ráð fyrir að þær hlaupi á tugum milljóna króna.
Framkvæmdir hófust um leið og gallinn kom í ljós og mun starfsemi skólans taka tímabundnum breytingum á meðan þær standa yfir. Þá verður tekið á móti börnum eftir sumarleyfi í húsnæði við Ármúla 28-30.
Ólöf segir að ekki sé tímabært að spá um hvenær starfsemin muni fara aftur í sitt eðlilega horf en segir að framkvæmdirnar geti tekið einhverja mánuði.
Ráðist var í úttekt á húsnæði leikskólans eftir að sprungur fóru að sjást á veggjum og einhverjar hurðir voru teknar að skekkjast í dyrakörmum.
„Þá kom í ljós að burðurinn sem heldur uppi þakinu er ekki í samræmi við núgildandi staðla. Sprungurnar eru þó ekki tilkomnar vegna þess, en ekki liggur hvað olli sprungunum og er það nú til skoðunar,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is
Nú liggur fyrir að reiknað álag frá ásteypuálagi og torfi á þakinu var meira en tilgreint var á teikningum.
„Það virðist vera pottur brotin og við vitum ekki hvort það sé í framkvæmdinni eða einhverju öðru svo við erum bara að skoða hvað veldur og hver ber ábyrgð,“ segir Ólöf.
Reykjavíkurborg fékk Grænu skófluna fyrir byggingu leikskólans en þau eru veitt fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum.
Stjórnendur skólans stigu fram í kjölfarið og furðuðu sig á þessu þar sem byggingin væri enn hálfkláruð. Þá virkuðu ljós, gluggar og loftræstingar illa ásamt því að stórvirkar vinnuvélar keyrðu fram og til baka á bílaplaninu á sama tíma og börnin voru að koma og fara úr leikskólanum.