Arnór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar, segir stofnunina aldrei hafa fengið þann stuðning og fjármagn sem þurfti til að leggja fyrir samræmdu könnunarprófin stafrænt.
Í viðtali við Morgunblaðið á fimmtudag sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sem var mennta- og menningarmálaráðherra á árunum 2017 til 2021, að stofnunin hefði ekki ráðið við að leggja fyrir könnunarprófin með stafrænum hætti. Þess vegna hefði hún ekki séð annan kost í stöðunni en að leggja þau niður.
Arnór segir það „af og frá“ að hægt sé að kenna stofnuninni um að framkvæmd prófanna misfórst. Það hafi síðan verið á ábyrgð ráðuneytisins að prófunum var frestað.
Þau hafa ekki verið lögð fyrir frá því að fyrirlagning þeirra mistókst árið 2021.
Það var í tíð Arnórs hjá Menntamálastofnun sem lagning síðustu samræmdu könnunarprófanna misfórst.
Spurður hvað hafi farið úrskeiðis, og hvers vegna ekki hafi verið hægt að leysa úr vandanum sem upp kom, segir Arnór stofnunina hafa haft mikinn metnað fyrir því að nútímavæða samræmdu prófin og gera þau stafræn á sínum tíma.
„Með því að gera þau rafræn þá erum við að opna á svo marga möguleika varðandi þróun prófanna, fjölbreyttari spurningar. Allir nemendur þurfa ekki að taka sama prófið, það miðast við hæfni hvers og eins.“
Þegar Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun voru sameinaðar í Menntamálastofnun árið 2015 var að sögn Arnórs tekin ákvörðun um að skipta yfir í stafræn próf í stað þess að byggja upp aðstöðu fyrir pappírspróf, sem hefði annars þurft heilmikið skipulag þar sem nýtt húsnæði var fengið undir nýju stofnunina.
„Það var alltaf ljóst að við gerðum þetta bara með einhverju bráðabirgðakerfi til þess að byrja með. Síðan var talað um að við þyrftum að fara í útboð á almennilegu kerfi, kaupa fullþróað prófakerfi. Það kom aldrei stuðningur eða fjármagn til þess,“ segir Arnór.
„Við sátum uppi með mjög gallað kerfi, sem á endanum sannaðist þegar það hrundi tvisvar. Þannig að við fengum bara aldrei þann stuðning og fjármagn sem þurfti til þess að taka upp almennileg kerfi og leggja fyrir prófin með því.“
Hann leggur áherslu á að það hafi verið ákvörðun ráðuneytisins að fresta fyrirlagningu samræmdu prófanna, sem hafa síðan þá ekki verið lögð fyrir.
„Það er ekki hægt að kenna Menntamálastofnun um það. Það er af og frá.“
Og nú á að leggja samræmdu prófin alfarið niður.
„Já, í staðinn fyrir að byggja upp kerfi sem þarf til að leggja fyrir samræmd próf þá voru einu leiðbeiningarnar sem við fengum í ráðuneytinu að færa það aftur yfir á pappír, sem var algjörlega ómögulegt því við vorum komin með allt annað skipulag og fyrirkomulag og komin með rafræn próf.“