Helgi: Áminningin „núll og nix“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari er ósammála því að ummæli hans á opinberum vettvangi hafi varpað rýrð á störf hans. Hann segir ríkissaksóknara ekki hafa verið í stöðu til að veita honum áminningu vegna þeirra né til að leysa hann frá störfum. Hann hyggst leita réttar síns vegna málsins.

Greint var frá því í gær að Helgi hefði verið leyst­ur frá störf­um tíma­bundið vegna kæru sem hann á yfir sér frá hjálp­ar­sam­tök­un­um Sol­ar­is. Stjórn hjálp­ar­sam­tak­anna kærði Helga vegna um­mæla sem hann lét falla um inn­flytj­end­ur, flótta­fólk og sam­tök­in sömu­leiðis.

Þótti ekki hafa bætt ráð sitt

Í svari Sig­ríðar J. Friðjóns­dótt­ur ríkissaksóknara við fyr­ir­spurn mbl.is um málefni Helga segir að hún hafi veitt honum áminn­ing­ar­bréf­ árið 2022 þar sem fram hafi komið að niðurstaða rík­is­sak­sókn­ara væri að með tján­ingu sinni, um­mæl­um og orðfæri í op­in­berri umræðu, hafi hátt­semi Helga Magnús­ar utan starfs hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ara verið ósæmi­leg og ósam­rýman­leg starfi hans og að sú hátt­semi hafi varpað rýrð á störf hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ara, á embætti rík­is­sak­sókn­ara og ákæru­valdið al­mennt.

Var Helga gef­inn kost­ur á að bæta ráð sitt með því að ít­reka ekki ávirðing­ar eða hátt­semi af því tagi sem lýst var í bréf­inu.

Að öðrum kosti gæti það leitt til þess að hon­um yrði veitt lausn frá embætti. Að mati rík­is­sak­sókn­ara bætti Helgi Magnús ekki ráð sitt og var það ástæða þess að máli hans var vísað til dómsmálaráðherra á dögunum.

Orðin vel valin

„Þessi síðustu orð mín voru nú þannig séð ósköp vel valin. Ég lít nú ekki svo á að þó að maður segi sannleikann um einhverja stöðu þá sé það eitthvað sem ekki megi segja. Síst af öllu að við sem þekkjum til og erum að vinna í þessu kerfi megum ekki tjá okkur,“ segir Helgi, inntur eftir viðbrögðum við skýringum Sigríðar.

Orðin sem Helgi vísar þar í eru ummæli um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum sem hann lét falla í viðtali við Vísi. Þar sagði hann: „Það eina sem stopp­ar þá er hnef­inn, vald­beit­ing.“ 

Áminningin frá árinu 2022 sem Sigríður talar um í svari sínu var hins vegar vegna ummæla Helga um flóttafólk og samkynhneigða karlmenn.

Hefur ekki vald til að veita áminningar

Helgi segir að áminningin hafi ekki átt við lög að styðjast því aðeins dómsmálaráðherra sem skipar í embættið sé í stöðu til að veita slíka áminningu.

„Sá sem veitir stöðuna veitir áminningu sem getur verið undanfari lausnar frá starfi. [Sigríður] hefur að mínu viti ekkert vald til að veita áminningar til ráðherraskipaðs embættismanns. Þannig að hún er núll og nix, þessi áminning, að mínu viti.“

Hann bætir við að hann hafi á sínum tíma ákveðið að fara ekki í mál til að fá áminninguna ógilda til að „klæða vopnin“.

Veit ekki hvort hann megi mæta

Þá tekur Helgi sömuleiðis fram að það sé ekki undir Sigríði komið að leysa hann frá störfum hvort sem það sé tímabundið eða varanlega.

„Það er í höndum ráðherra að leggja það fyrir sérstaka nefnd í samræmi við 27. grein starfsmannalaga sem er skipuð einhverjum sérfræðingum sem munu þá fjalla um tilefni þeirrar beiðni,“ útskýrir Helgi og bætir við að honum finnist ólíklegt að dómsmálaráðaherra fari í þá vegferð „vegna einhverja svona núansa sem er verið að gera allt of mikið úr“.

Munt þú þá halda áfram störfum þangað til ráðherra myndi mögulega aðhafast eitthvað slíkt?

„Ég veit það ekki. Sigríður tilkynnti það nú að ég þyrfti ekki að mæta í vinnuna.“

En máttu mæta í vinnuna?

„Ég bara veit það ekki. Alla vega er ekki óskað eftir því að ég sinni starfinu og væntanlega getur hún gert það sem yfirmaður en hún verður þá bara að borga mér laun fyrir að sitja heima. Mér finnst það nú ekki farið vel með fjármuni ríkissjóðs að standa í svoleiðis leikaraskap.“

Ætlar að leita réttar síns

Spurður hvort hann muni leita réttar síns vegna málsins segir Helgi: „Algjörlega, ef að því kemur [...] að þetta verði lagt fyrir þessa nefnd þá hefur þar minn lögmaður tækifæri á að verjast þessari kröfu og það væri fyrsti vettvangurinn til að taka til varna.“

Helgi dregur ekki aðeins lögmæti framgöngu Sigríðar í málinu í efa heldur er hann líka ósáttur með hvernig komið var fram við hann í tengslum við það en margir vinnufélagar hans fréttu af lausn Helga frá störfum á undan honum sjálfum.

„Ég er í sumarleyfi og sá þennan póst ekki fyrr en rúmum klukkutíma eftir að hann var birtur. Það var ekkert samtal og engin aðvörun. Við erum búin að vinna saman með hléum í 25 ár. Ég hefði nú búist við símtali eða einhverju öðru áður en ég fékk þennan tölvupóst og áður en mér var tilkynnt um þetta. Það er algjörlega fyrir neðan allar hellur hvernig hún stóð að þessu. Mjög óvandað og ég er mjög ósáttur við þetta.“

Ummælin aukaatriði

Að lokum telur Helgi að ummælin um innflytjendur frá Mið-Austurlöndum sem hafi sett þessa atburðarás á stað hafi verið algjört aukaatriði í stærra samhengi.

Umrædd ummæli lét Helgi falla í viðtali við Vísi um hótanir sem hann og fjölskylda hans hafa sætt síðustu ár af hálfu afbrotamannsins Mohamads Th. Jóhannessonar, áður Kourani.

„Það sem þetta snýst náttúrulega um eru hótanir sem ég og fjölskyldan mín hafa setið undir í langan tíma. Ég skoða símann minn í hvert skipti sem það koma skilaboð um að það sé einhver upp við húsið heima hjá mér í myndavélum sem eru með hreyfiskynjurum og ég er búinn að vera undir þessu álagi í þrjú ár. [...] Þetta snerist nú um það, þetta viðtal, þetta var nú aukaatriði sem kom þarna fram og ég veit ekki af hverju það er orðið eitthvert aðalatriði,“ segir Helgi.

Hefði verið betra að þegja

Þá segir hann Sigríði ekki hafa sýnt hótunum, og því álagi sem þær hafi valdið, skilning.

„Það hefur aldrei verið neitt atriði hjá Sigríði að ég hafi verið undir þessum hótunum eða að hún eigi að sýna því einhvern stuðning eða skilning. Það er eins og að það sé bara hluti af mínum starfsskyldum að sitja undir þessu. Ég hef auðvitað verið mjög ósáttur við það og núna þegar ég tjái mig um þetta þá er eitthvert aukaatriði orðið eitthvert aðalatriði í hennar huga, að ég hafi ekki orðað þetta nógu pent eða hvað.“

Að lokum útskýrir Helgi að ef til vill hafi það verið álagið sem hótanirnar ollu og sú staðreynd að þær beindust að fjölskyldu hans að hann hafi orðað hlutina eins og hann gerði.

„Ég átta mig á því að þótt maður telji sig vera mikinn nagla þá hefur slíkt áhrif á mann því það er ekkert dýrmætara en börnin mans og fjölskylda. Og ég bara átta mig á því að það getur verið aðeins styttri í manni þráðurinn þegar slíkt er.“

Sérðu þá eftir ummælunum?

„Það hefði nú kannski verið einfaldara að vera ekki að gefa fólki færi á einhverjum upphlaupum og látum. En það er ekkert í þessum ummælum sem ég tel rangt eða meiðandi eða einhvers konar hatursorðræða. Og í rauninni skrýtið að þurfa að standa í því að vera að svara fyrir eitthvað sem er í raun ekkert nema sannleikurinn sem allir þekkja. En fyrir þæginda sakir væri kannski betra að þegja eins og allir gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert