Íbúar hafa lítinn áhuga á sameiningu

Um 40 manns sóttu fundinn, sem er um 23% af …
Um 40 manns sóttu fundinn, sem er um 23% af kosningabærum íbúum sveitarfélagsins. mbl.is/Golli

Íbúar Súðavíkurhrepps eru almennt mótfallnir því að hefja sameiningarviðræður við annað sveitarfélag. Þann 21. júlí sl. var haldinn íbúafundur í Súðavíkurskóla þar sem umræður um sameiningarmál og stöðu sveitarfélagsins fóru fram.

„Fundurinn var vel sóttur miðað við árstíma,“ segir Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri Súðavíkurhrepps í samtali við Morgunblaðið. Um 40 manns sóttu fundinn, sem er um 23% af kosningabærum íbúum sveitarfélagsins.

Á fundinum fór Bragi yfir stöðu og framtíð sveitarfélagsins í ljósi lagabreytinga frá 2021. Þessar lagabreytingar gera ráð fyrir að sveitarfélög með færri en 250 íbúa þurfi að hefja formlegar sameiningarviðræður eða skila áliti til innviðaráðuneytisins um stöðu og getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum.

Frá fundinum 21. júlí.
Frá fundinum 21. júlí. Ljósmynd/Súðavíkurhreppur

Sýndarsamráð

Bragi rekur aðdragandann að þessum breytingum og hvernig þær hafa haft áhrif á sveitarfélagið. Hann rifjar upp fund sem haldinn var á Ísafirði árið 2019 af hálfu ráðuneytisins þar sem fulltrúar frá flestum sveitarfélögum á Vestfjörðum voru mættir.

„Það var víst samráðið sem átti að vera hvatinn að lagabreytingunum þegar átti að setja lög um íbúafjöldann,“ segir Bragi. Hann segir mjög skiptar skoðanir hafa verið á þessum fundi og aðallega voru þær þannig að flestir voru á móti sameiningu, sérstaklega fulltrúar fámennari sveitarfélaganna.

„Það sem mér þótti kannski sérstakt, þegar ráðuneytið gerði upp fundinn, var að þá var talað um að það hefði verið almenn ánægja,“ segir Bragi og hlær. Í greinarskrifum undanfarin ár hefur Bragi gagnrýnt aðferðafræði ráðuneytisins við þessar lagabreytingar.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert