Lögmaður braut siðareglur í forræðismáli

Konan segir lögmanninn hafa gengið erindi umbjóðanda síns langt umfram …
Konan segir lögmanninn hafa gengið erindi umbjóðanda síns langt umfram það sem eðlilegt getur talist og tilgreinir sérstaklega nítján atriði í kvörtuninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrskurðarnefnd lögmanna segir framferði lögmanns í forræðismáli aðfinnsluvert.

Kona kvartaði til úrskurðarnefndar undan framferði lögmanns sem fór fyrir máli barnsföður og fyrrum eiginmanns konunnar, í forræðisdeilu þeirra.

Samkvæmt málsatvikum og málsástæðum úrskurðarins viðhafði lögmaðurinn meðal annars tölvupóstssamskipti við fulltrúa barnaverndarnefndar og sagði þar: „[M]óðir er ekki heil“.

Sakaði barnavernd og lögreglu um aðgerðaleysi

Konan segir lögmanninn hafa gengið erindi umbjóðanda síns langt umfram það sem eðlilegt getur talist og tilgreinir sérstaklega nítján atriði í kvörtuninni.

Meðal atriða er fjöldi tölvupósta sem lögmaðurinn sendi fulltrúa barnaverndar. Í tölvupóstunum kallar hún eldri börn konunnar „iðuleysingja“ og segir að konan sé: „...algjörlega óhæf til að fara með umsjá drengsins.“

Í tölvupósti sakaði lögmaðurinn konuna um að hafa fyrirskipað rán á dreng og sakaði lögreglu og barnavernd um aðgerðaleysi.

Hélt áfram í formi tölvupósta

Þá á lögmaðurinn að hafa haldið áfram málflutningi sínum að lokinni aðalmeðferð í formi tölvupóstsamskipta við dómara eftir að efnislegum málflutningi og framlagningu gagna var lokið og málið tekið til úrskurðar. 

Konan krafðist þess að úrskurðarnefnd veitti lögmanninum áminningu eða beiti öðrum viðhlítandi agaviðurlögum vegna háttsemi hennar fyrir brot á siðareglum lögmanna. 

Lögmaðurinn sagði konuna bera sig óljósum sökum, taldi sig ekki á skjön við siðareglur og taldi það nauðsynlegt að koma sjónarmiðum umbjóðanda síns á framfæri

Að mati lögmannsins var ekki um innistæðulausar fullyrðingar að ræða, enda taldi faðirinn að börnin væru í hætt komin sökum andlegrar vanheilsu konunnar. 

„Konan er augljóslega ekki heil á geði“

Úrskurðarnefnd hafnaði beiðni lögmannsins um frávísun málsins og sagði fjögur af 19 ummælum hennar aðfinnsluverð.

Nefndi nefndin meðal annars ummælin: „Móðir er ekki andlega heil“ og „Konan er augljóslega ekki heil á geði og er til alls líkleg. Ætla starfsmenn BVN að hafa það á samviskunni að hafa fullyrt að drengnum sé ekki hætta búin hjá móður og finna [hann] svo látinn!“

Nefndin taldi einnig framferði lögmannsins í tölvupóstsamskiptum við dómara málsins aðfinnsluvert.

Málskostnaður í málinu var felldur niður og þótti rétt að hvor aðili um sig bæri sinn kostnað af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert