Byggðastofnun hefur krafist nauðungarsölu á jörðinni Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit ásamt húsbyggingu sem á jörðinni er, en hvort tveggja er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory.
Lán að fjárhæð 120 milljónir króna sem tekið var til að fjármagna húsbyggingu á jörðinni er í vanskilum og stendur nú í tæplega 180 milljónum.
Húsinu, sem um ræðir, var ætlað að hýsa kínversk-íslenska rannsóknarmiðstöð um norðurljós.
Fyrsta fyrirtaka í málinu verður 23. ágúst nk. skv. upplýsingum frá Byggðastofnun.
Í samtali við Morgunblaðið segir Ólína Arnkelsdóttir, formaður stjórnar Aurora Observatory, að málið sé í vinnslu, en hún eigi síður von á að til uppboðsins komi. Hún segir að ýmissi rannsóknarstarfsemi sé sinnt í húsinu og komi Rannís, háskólasamfélagið og Kínverjar þar við sögu. Húsið sé reyndar ekki fullklárað og ástæðu fjárhagsvandræðanna kveður hún vera að kostnaður við bygginguna hafi farið fram úr áætlunum.
Að öðru leyti vísar hún á Reinhard Reynisson framkvæmdastjóra sjálfseignarstofnunarinnar sem ekki náðist í við vinnslu fréttarinnar. Reinhard er jafnframt starfsmaður Byggðastofnunar sem krefst nauðungarsölunnar.