Ósammála starfsbræðrum sínum

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, er ósammála starfsbræðrum sínum á Suðurnesjum um að tímabært sé að afnema lagaákvæði sem gerir Grindvíkingum kleift að vera áfram með skráð lögheimili í bænum en aðsetur annars staðar.

Frá hamförunum síðasta haust hafa flestir Grindvíkingar flutt í önnur sveitarfélög án þess þó að breyta lögheimili sínu en lagabreytingar sem fóru í gegnum Alþingi síðasta haust heimila það.

Bæjastjóri Reykjanesbæjar og sveitastjóri Voga hafa látið í ljós þá skoðun að tímabært sé að afnema ákvæðið og laga lögheimilisskráningu Grindvíkinga en sveitafélögin verða af miklum útsvarstekjum ef íbúar eru ekki með skráð lögheimili þar.

Fannar er ósammála því að afnema ætti aðsetursákvæðið og telur mikilvægt að útsvarstekjur renni áfram til Grindavíkurbæjar.

Launakostnaður lækkar ekki strax

Í bréfi sem hann sendi blaðamanni til að skýra aftöðu sína kemur fram að enn sé töluverður kostnaður sem bæjarstjórn þurfi að standa skil á þrátt fyrir að hafa ráðist í miklar uppsagnir.

„Á vormánuðum lá fyrir að skólahald yrði ekki með hefðbundnum hætti í Grindavík skólaárið 2024-2025. Það var því óumflýjanlegt fyrir bæjarstjórn Grindavíkur að taka þá sársaukafullu ákvörðun að fækka starfsfólki á fræðslusviði sem og flestum stofnunum bæjarins og leggja niður eða sameina störf í stórum stíl. 

Launakostnaður var langstærsti útgjaldaliður bæjarfélagsins og var starfsfólk á fræðslusviði fjölmennasti hópurinn. Grindavíkurbæ ber að sjálfsögðu að greiða starfsfólki sínu laun á uppsagnarfresti þannig að lækkunar á launakostnaði hjá bæjarfélaginu fer ekki að gæta að ráði fyrr en komandi haust og lýkur ekki fyrr en komið er fram á árið 2025,“ segir í bréfinu.

Öðrum sveitafélögum greitt fyrir þjónustu

Þá kemur fram að þessar aðstæður leysi bæjarstjórn ekki undan þeirri skildu að veita fólki með lögheimili í Grindavík lögbundna þjónustu en bæjarstjórn hyggst greiða öðrum sveitafélögum fyrir þá þjónustu sem þau hafa veitt fólki með lögheimili í Grindavík frá 10. nóvember.

„Grindvísk börn stunduðu nám í nærri 70 skólum í 28 sveitarfélögum víðs vegar um land á vorönn 2024. Grindavíkurbær hefur að undanförnu verið að ganga frá uppgjöri vegna kostnaðar sem önnur sveitarfélög þurftu að bera vegna grindvískra nemenda á síðasta skólaári. Sá kostnaður að viðbættum launagreiðslum til starfsfólks Grindavíkurbæjar á uppsagnarfresti er verulegur og kallar á virkt tekjustreymi til bæjarsjóðs. 

Fyrir liggur að gera einnig upp kostnað vegna leikskólaþjónustu, tiltekinnar félagsþjónustu og fleiri þátta og létta þannig undir með þeim sveitarfélögum þar sem íbúar Grindavíkur hafa búið um sig.“

Aðsetursskráningin „afar mikilvæg fyrir Grindavíkurbæ“

Í bréfinu kemur sömuleiðis fram að útsvarsgjöld séu í raun mikilvægari nú en áður þar sem bærinn innheimti mun minni fasteignagjöld en fyrir hamfarirnar. Fasteignafélagið Þórkatla hefur keypt mikinn hluta íbúðarhúsnæðis í bænum en félagið er undanþegið greiðslum fasteignagjalda samkvæmt lögum.

Að lokum ítrekar Fannar mikilvægi lagaákvæðisins um aðsetursskráningu:

„Við hugsum með hlýhug til sveitarstjórna og íbúa víða um land sem hafa boðið grindvískar fjölskyldur velkomnar á nýjar slóðir. Ríkisstjórn Íslands hefur staðið fyrir mjög mikilvægri aðstoð til handa Grindvíkingum á mörgum sviðum og alþingsmenn hafa af sama skapi myndað órofa samstöðu um lagasetningar í þágu Grindvíkinga. Meðal mála er heimildarákvæði til bráðabirgða í lögum um lögheimili og aðsetur varðandi tímabundna skráningu aðseturs. [...] Þessi heimild um aðsetursskráningu er afar mikilvæg fyrir Grindavíkurbæ og bæjarbúa og ber að þakka þeim sem að stóðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert