Segir ráðherra hafa skort áhugann

„Ef þú hefur áhuga á gæðamálum þá seturðu í þau …
„Ef þú hefur áhuga á gæðamálum þá seturðu í þau það sem til þarf,“ segir Arnór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar segir blasa við að eftirliti með gæðum íslenska menntakerfisins sé mjög ábótavant. Honum þykir sérstakt að ekkert kerfisbundið náms- og gæðamat sé viðhaft og segir eina raunverulega mælikvarðann á íslenskt menntakerfi vera PISA-könnunarprófið, sem lagt er fyrir á aðeins þriggja ára fresti.

„Við stöndum bara ekki vel varðandi gæðamálin almennt,“ segir Arnór Guðmundsson, sem stýrði Menntamálastofnun frá því hún var stofnuð árið 2015 og fram til ársins 2022.

Arnór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef ekkert séð gert við þá skýrslu“

Arnór vekur athygli á því að Menntamálastofnun hafi lokið við að framkvæma ytra mat á öllum grunnskólum landsins og skilað skýrslu til ráðuneytisins þegar hann var forstjóri. Mikill tími hafi farið í að heimsækja alla grunnskólana. Verkefnið tók í heildina um tíu ár en hefði aðeins átt að taka fjögur til fimm ár.

„Þetta var búið að vera í gangi lengi og hafði gengið mjög hægt. Við töluðum við Jöfnunarsjóð [sveitarfélaga] og fengum styrk þaðan til að ljúka þessu markmiði,“ segir Arnór.

„Við lukum við að fara í alla skóla í kringum 2020 og skrifuðum samantektarskýrslu. Ég hef ekkert séð gert við þá skýrslu og þær niðurstöður. Við notuðum til að mynda niðurstöður samræmdra prófa í ytra matinu, fórum með þær og ræddum þær við skólastjórnendur og kennara. Það kom alveg fram hver staða skólans var eftir námsmatið, meðan það var fyrir hendi – það var hluti af ytra matinu,“ segir Arnór og heldur áfram:

„Auðvitað er eðlilegt að þetta sé á fjögurra og fimm ára fresti. Þú vilt síðan fylgja því eftir strax árið eftir, kannski ekki með jafn ítarlegri úttekt en samt þannig að það sé verið að skoða hvort það sé verið að gera eitthvað. Hluti af þessu ytra mati eru tillögur að úrbótum. Síðan er skólum og sveitarfélögum skrifað bréf þar sem er farið fram á úrbótaáætlun.“

Hver ber ábyrgð á að gera eitthvað með niðurstöðurnar?

„Það eru ráðuneytið og sveitarfélögin.“

Lögðu til að samræmdu könnunarprófin yrðu þróuð

Eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá verður nýtt námsmat, matsferill, ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027.

Samt sem áður heldur menntamálaráðuneytið því enn fram í samráðsgátt að matsferillinn verði reiðubúinn til notkunar eftir áramót. Ekkert hefur í raun komið í stað prófanna og því ljóst að minnst sex ár muni líða án þess að gert verði samræmt innlent mat á hæfni íslenskra grunnskólanemenda.

Að þínu mati – hefði verið hægt að þróa samræmdu könnunarprófin áfram þannig að það væri hægt að leggja þau fyrir og að þau yrðu nútímalegri?

„Já, það var okkar tillaga að prófið yrði þróað áfram,“ segir Arnór. „Að mínu mati hefði verið eðlilegast að þróa samræmdu prófin áfram með þessum rafræna hætti og tryggja að það væri áreiðanlegt námsmat sem væri sambærilegt, bæði milli skóla og yfir tíma. Þá hefurðu aðrar upplýsingar um stöðu menntakerfisins, þú þarft ekki að bíða í þrjú ár eftir PISA, líka þá upplýsingar um úrbætur, hvernig eru þær að skila sér.“

Ef ráðuneytið er ekki tilbúið með íslenskt námsmat, ætti þá ekki að vera hægt að leggja fyrir alþjóðleg próf?

„Jú, algjörlega. Það eru próf sem öll lönd í nágrenni okkar, sem við berum okkur saman við, eru að leggja fyrir.“

„Spurning um hvaða vægi menn gefa þessu“

Spurður hvers vegna ekki hafi verið hægt að sinna þessu betur á þeim tíma sem hann var forstjóri, þ.e. annars vegar samræmdu prófunum og hins vegar ytra matinu sem tók tíu ár í stað fjögurra, segir Arnór hafa skort hvort tveggja fjármagn frá ráðuneytinu og áhuga ráðherra.

„Ef þú hefur áhuga á gæðamálum þá seturðu í þau það sem til þarf. Ef þú hefur áhuga á gæðamálum þá kemurðu þér inn í alþjóðleg próf, byggir upp þá innviði sem þarf til þess að hafa náms- og gæðamat á íslandi. Það er bara spurning um hvaða vægi menn gefa þessu pólitískt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert