Egill Aaron Ægisson
„Við erum að reyna að meta hvernig áin rann hérna í flóðinu. Svo eftir það þá vonandi getum við reynt að leggja mat á rennslið sem var í flóðinu,“ segir Gunnar Sigurðsson, fagstjóri vatnamælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Var hann mættur, ásamt samstarfsfélaga sínum Hákoni Halldórssyni, fyrr í dag í vatnamælingar við Skálmarbrú þar sem jökulhlaup varð á laugardag.
„Við vitum náttúrulega hvar vatnið fór upp á veginn, við erum bara að mæla hæðina á veginum og hæðina á flóðflæðinu svo mælum við dýpið í ánni og reynum að gera þetta eins vel og við getum,“ segir Gunnar og bætir við:
„Þetta er til að leggja mat á farveginn sem að áin rann hér um. Ef við höfum sæmilegt mat á honum þá getum við vonandi reiknað rennslið með einhverri nákvæmni.“
Nefnir Gunnar að tekin verði vatnssýni og myndir. Þá munu þeir einnig mæla rennslið í Skálm eins og það er núna.