Þróa þarf skýrar leiðbeiningar, lög og reglugerðir til að takmarka hættu sem stafar af virkum misgengjum og sprungum innan byggðarskipulags á Íslandi.
Þetta segir Gregory De Pascale, dósent í jarðfræði við Háskóla Íslands (HÍ).
Hann tók þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á jarðhræringunum í Grindavík í nóvember, þegar 5 km breiður sigdalur myndaðist í öflugri jarðskjálftahrinu. Sigdalurinn er um margt einstakur á heimsvísu.
De Pascale er aðalhöfundur nýrrar vísindagreinar sem birtist á dögunum í bandaríska tímaritinu Geophysical Research Letters. Greinina vann hann í samvinnu við fleiri vísindamenn frá HÍ, Veðurstofunni, Charles-háskóla í Tékklandi, Vísindaakademíu Tékklands auk King Abdullah vísinda- og tækniháskólans í Sádi-Arabíu.
Samkvæmt tilkynningu frá HÍ er rakið í greininni að sigdalurinn hafi valdið miklu tjóni, bæði vegna mikilla skjálftahreyfinga og gliðnunar á sprungum og virkum misgengjum.
Rannsóknarteymið sýnir einnig fram á að þetta tæplega 5 km breiða aflögunarsvæði geymi tvo samliggjandi sigdali, aðskilda með litlum rishrygg. Atburðurinn sé því frábrugðinn öðrum nýlegum dæmum um myndun sigdala, bæði á Íslandi og erlendis.
Áður hafi myndast stakir sigdalir mjórri en 1,5 km, en þetta geri atburðinn einstakan – og afar alvarlegan – með hliðsjón af því tjóni sem varð á heimilum, húsum og innviðum sem byggð voru þvert yfir sprungurnar.
De Pascale segir að þetta sýni hversu mikilvægt það sé að þekkja landið sem byggt er á og að varast beri að byggja á eða nálægt virkum sprungum og misgengjum.
„Ég hef unnið með svæði sem eru sprungin og gengin á mis á stöðum eins og á Nýja-Sjálandi, í Kaliforníu og Chile. Á þessum stöðum eru sett lög og reglur um þetta og hvað gera skuli,“ er haft eftir honum. „Ljóst er að við getum ekki farið aftur í tímann hvað þessi mál varðar, en við getum tekið meðvitaðar ákvarðanir til að takmarka efnahagslegt og samfélagslegt tjón í framtíðinni.“