Skoða hvort sami maður hafi berað sig ítrekað

Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn á rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.
Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn á rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að rannsaka nokkur mál þar sem að maður er grunaður um að hafa berað sig eða áreitt með einhverjum hætti konur og hvort um er að ræða sama manninn er bara hluti af rannsókninni eða hvort um er að ræða einhverja fleiri,“ segir Grímur Grímsson, yf­ir­lög­regluþjónn á rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

mbl.is greindi frá því á laugardag að karlmaður hafði berað kynfæri sín fyrir konu aðfaranótt laugardags. Sagði í dagbók lögreglu að maðurinn hefði elt fótgangandi konuna.

„Karl­inn fór úr bif­reiðinni sinni, kallaði á eft­ir kon­unni með bux­urn­ar niðri um sig þannig að getnaðarlim­ur hans blasti við,“ sagði þá í dagbókinni.

Var svo greint frá því stuttu seinna að maðurinn hafi verið handtekinn og biði yfirheyrslu.

Önnur svipuð mál til rannsóknar

Í samtali við mbl.is segir Grímur að málið sé nú til rannsóknar og jafnframt sé verið að rannsaka hvort það tengist öðrum málum sem lögregla hefur fengið tilkynningar um sem eru með svipuðum hætti.

Staðfestir Grímur að konurnar hafi verið fengnar í skýrslutöku til að gefa lýsingu á þeim sem beraði sig.

„Það er raunverulega það sem svona rannsókn gengur út á. Það er að safna upplýsingum eftir atvikum. Hvort hægt sé að hafa upp á einhverjum bíl eða einstaklingi sem að getur passað við lýsingu,“ segir Grímur.

Gefa þær lýsingar sem komið hafa til lögreglu þá mynd að um sé að ræða einn og sama manninn?

„Það er allavega tilefni til þess að kanna hvort um sé að ræða sama aðila sem hefur verið að áreita í málum sem við erum með til rannsóknar.“

Aðspurður segir Grímur að málin séu nokkur talsins en séu þó undir tíu.

Öll háttsemin til rannsóknar

Spurður hvort sú staða hafi komið upp í öðrum málum að gerandi hafi elt konur sem eru áreittar, líkt og gerðist á laugardag, segist Grímur ekki tilbúinn til að ræða nánar lýsingar hvers máls.

„Við erum bara að rannsaka þessi mál og þau eru öll náttúrulega í rannsókn og við erum að reyna að átta okkur á því hver eða hverjir eru gerendur. Þá líka á atvikinu sjálfu í hverju máli. Það er kannski ekkert endilega þannig að í hverju einasta máli þá hafi einhver hlaupið á eftir þeim sem hann er að áreita en þetta kemur bara í ljós við frekari rannsókn á málinu,“ segir yfirlögregluþjónninn.

Segir þá Grímur að málið sé rannsakað sem blygðunarsemisbrot.

„En síðan getur alltaf verið í svona málum að þá komi eitthvað í ljós við rannsóknina sem ekki er ljóst á upphafsstigum,“ nefnir Grímur.

„Það er öll háttsemin til rannsóknar og það verður metið þegar búið er að safna meiri gögnum um hvað er að ræða,“ bætir hann við.

Upplýsir Grímur að lokum að maðurinn sem var handtekinn fyrir að hafa berað sig á laugardag hafi verið yfirheyrður í gær og síðan sleppt úr haldi lögreglunnar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert