Lúxussnekkja Jims Ratcliffes, bresks auðkýfings og landeiganda í Vopnafirði, liggur rispuð við Grandabakka í Reykjavíkurhöfn.
Þegar vegfarandi átti leið fram hjá glæsifleyinu sá hann einn hásetann undirbúa málningarvinnu eftir að hafa pússað yfir rispurnar í lakkinu.
Snekkjan, sem nefnist Sherpa, var smíðuð árið 2018 og siglir undir þjóðfána Cayman-eyja.
Sherpa er metin á 100 milljónir bandaríkjadala, eða um 14 milljarða króna, að sögn Superyachtfan.
Snekkjan er 73,6 metra löng og er í 236. sæti yfir þær stærstu í heimi. Hún var smíðuð af Feadship í Hollandi árið 2018.
Ratcliffe á aðra snekkju sem nefnist Hampshire II og var hún einnig smíðuð af Feadship. Hún er metin á 150 milljónir bandaríkjadala, eða um 21,5 milljörðum króna.
Ratcliffe er þekktur Íslandsvinur og hefur frá árinu 2016 verið stærsti landeigandi á Íslandi, þar sem hann keypti Grímsstaði á Fjöllum.
Fyrirtæki hans, Six Rivers Iceland, heldur utan um helstu laxveiðiár á Norðausturlandi. Fyrirtækið stendur nú fyrir alþjóðlegu verkefni með það að leiðarljósi að vernda atlantshafslaxinn.
Þá stendur hann einnig fyrir hóteluppbyggingu á Vopnafirði í tengslum við laxveiði.
Eins og frægt varð eignaðist hann hlut í enska knattspyrnuliðinu Manchester United um jólin. Kaupverðið nam um 1,3 milljörðum punda.