„Það er bara allt á fullu“

Tjónið á veginum er umtalsvert eins og sést á þessari …
Tjónið á veginum er umtalsvert eins og sést á þessari mynd sem tekin var á sunnudaginn. mbl.is/Hákon

„Ég er að stýra umferð hérna og gera allt í einu,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is, inntur eftir stöðu mála á Hringveginum þar sem töluvert tjón varð vegna jökulhlaups sem hófst í Mýrdalsjökli á laugardaginn.

„Það er bara allt á fullu, það er það eina sem ég get sagt. Það er bara verið að keyra í og stýra umferð og halda öllu gangandi,“ heldur verkstjórinn áfram og auðheyrt á umhverfishljóðum að hann er staddur í miðri hringiðu atburða á svæðinu.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík, er á vettvangi …
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík, er á vettvangi viðgerðar á Þjóðvegi 1 eftir jökulhlaupið á laugardaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil umferð

„Þetta gengur bara mjög vel, það er bara svo mikil umferð og það er aðallega verið að stýra henni svo hún trufli ekki vinnuflokkana. Við þurfum bara að láta þetta vinna saman,“ segir Ágúst.

Aðspurður lýkur hann máli sínu með því að dagurinn fram undan verði með nákvæmlega því sniði sem nú sé, verið sé að keyra efni á fullum dampi í veginn þar sem hann varð fyrir tjóni er óblíð náttúruöflin fóru um hann höndum.

Vegurinn á flóðasvæðinu við Skálm er enn einbreiður og því einstefna á þeim kafla, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Umferð er þar stýrt og eru vegfarendur beðnir um að aka varlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka