„Var bara ekkert hlustað á okkur“

Ljóst er að mikil vinna mun fara í að laga …
Ljóst er að mikil vinna mun fara í að laga tjónið eftir jökulhlaupið. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Auðvitað situr það í manni að vera búinn að vera röflandi í þessu í fleiri, fleiri ár og ekkert gerist,“ segir Jóhannes Gissurarson, bóndi á Herjólfsstöðum og oddviti í Skaftárhreppi, um jökulhlaupið sem hófst á laugardag.

Segir hann heimamenn í Álftaveri hafa verið búna að vara við að hlaup gæti komið niður Skálm og leita á náðir stofnana landsins en ekki hafi verið hlustað.

Í samtali við mbl.is segir Jóhannes að atburðurinn sé tilkominn vegna breytingar á farveg Leirár er hún tók að færa sig ofan í Skálmina.

Atburðarás sem hófst fyrir nær þrjátíu árum

„Sú breyting sem varð á Leirá á þeim tíma hún verður þess valdandi að hlaupið kemur niður í Skálm. Hlaupið sjálft kemur eftir farvergi Leirár undan jökli. Hefði hún verið við sinn venjubundna farveg þá hefði þetta ekki náð niður í Skálm heldur upp í Hólmsá og þaðan í Kúðafljót. Hvort þau mannvirki hefðu haldið sem þar eru, brúin yfir Hólmsá og brúin yfir Kúðafljót – mér finnst frekar líklegt að það hefði sloppið, en ég veit ekkert um það samt, það er bara eitthvað sem reyndi aldrei á,“ segir Jóhannes.

Að sögn oddvitans þá á atburðarásin sér langan aðdraganda en telur hann að fyrstu merkin hafi farið að sýna sig árið 1995-1996. Segir hann að ítrekað hafi verið leitast á náðir stofnana, og nefnir hann Landgræðslu og Vegagerðina sem dæmi, sem hafi ekki hlustað á heimamenn.

„Einu sinni kom ég með almannavarnanefnd hingað upp eftir ásamt fulltrúum þessa stofnana og jarðvísindamenn,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Þrátt fyrir allar þessar upplýsingar sem við gátum veitt og gátum bent á að þetta stefndi í óefni þá var bara ekkert hlustað á okkur. Það er bara einfaldasta svarið. Þessu var ekki sinnt.“

Hægt var að keyra yfir brúnna þrátt fyrir viðgerðir í …
Hægt var að keyra yfir brúnna þrátt fyrir viðgerðir í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Jarðvísindamenn spila rullu

Nefnir hann að rök Landgræðslu hafi verið skortur á fjármagni til að standa í fyrirhleðslum og að Vegagerðin hafi talið málið ekki koma sér við, enda langt til vega.

„Það er kannski í raun rökrétt að Vegagerðin sér um vegi og Landgræðslan eigi að sjá um landið. Það er kannski rökrétt að Vegagerðin færi sig undan þessu vegna þess að þetta er líka einhverja 25 til 30 kílómetra fyrir ofan þjóðveg eitt og langt þar með frá að eðlilegt geti talist að vegagerðin sé að sinna þessu ef maður á að taka upp hanskann fyrir hana,“ segir Jóhannes en bætir enn fremur við að jarðvísindamenn spili stóra rullu í málinu.

„Ég leyfi mér að halda því fram að ef að jarðvísindamenn séu að ýja að því að í vændum séu einhverjir stórir atburðir eins og var þarna árið 2010 – ef þeir ýja að því að það sé yfirvofandi Kötlugos þá eru stofnanirnar kannski ekkert að fara að standa í neinum framkvæmdum ef það þurrkast allt út í einu gosi.“

Segir þá Jóhannes að jökulhlaupið á laugardag hafi sett samfélagið á hliðina.

„Þetta snertir mjög marga. Það bara eitt og sér að við erum að vara við því að vegasambandið sé í hættu. Ekki bara í Skálminni vegna þess að við höfum horft upp á það undanfarin ár að þetta jökulvatn er að flækjast hérna um þetta land frá Sandfelli og niður undir þjóðveg og við biðum eftir því núna. Við horfðum upp á það og þá þróun að það er að færast nær þjóðveginum,“ segir Jóhannes og bætir við:

„Þótt þessi einstaki atburður sé liðinn núna með tilheyrandi tjóni og sem að var nú sem betur fer ekki eins mikið tjón og hefði orðið ef brúin hefði flotið af. En eftir stendur að áin er á sínum stað og stefnir hérna suður niður á þjóðveg.“

Mun halda áfram að eyðileggja land

Þegar blaðamaður náði tali af Jóhannesi var hann í leit að sauðfé. Í viðtali við mbl.is í gær sagði hann líklegt að hann hefði tapað sauðfé í hlaupinu.

„Það vill svo til að ég stend við hliðina á Skálm á þeim stað sem er í raun eini staðurinn til þess að hafa áhrif á hana og ég sé enga breytingu á henni. Hún mun halda áfram að renna hérna niður úr og hún mun halda áfram að eyðileggja land og hún mun halda áfram að ógna þjóðveginum,“ segir oddvitinn.

Því hlýtur að fylgja pirringur að það hafi verið horft svona fram hjá ykkur?

„Alla vega í okkur bændum sem eigum þetta land og okkar nágrönnum. Okkur gremst það hvað áhugaleysið virtist vera algjört og þetta endar síðan í þessum atburði,“ segir Jóhannes en bætir við að lokum:

„Ég tek það fram að það gæti vel verið að þessi atburður hafi verið svo stór að tjón hefði orðið þó áin hefði verið á sínum gamla stað. Ég ætla ekki að útiloka það svo því sé haldið til haga. Það gæti vel verið að það hefði orðið einhver skaði en brúin yfir Skálm var engan veginn hönnuð eða hugsuð til þess að taka við þessari viðbót sem að fellst í þessu vatnsfalli frá Leiránni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert