Á fleiri föt eftir átta ár sem forsetafrú

Forsetafrúin Eliza Reid fer yfir árin átta á Bessastöðum.
Forsetafrúin Eliza Reid fer yfir árin átta á Bessastöðum. mbl.is/Ásdís

Eliza Reid forsetafrú þakkar öllum sem hvöttu hana til að láta rödd sína heyrast á sama tíma og hún segir það undarlega upplifun að verða þjóðþekkt fyrir það eitt að eiga eiginmann í tiltekinni stöðu. 

Hún kveðst enn vera sama manneskjan, eftir átta ár á Bessastöðum, þó hún eigi reyndar fleiri föt núna. Frá þessu greinir Eliza í færslu á facebook-síðu sinni þar sem hún fer yfir farinn veg á sínum síðasta degi sem forsetafrú.

„Daginn í dag er ég forsetafrú í síðasta sinn. Á morgun verð ég horfin úr því óformlega hlutverki. Það hefur verið einstakur heiður að þjóna mínu nýja landi á þennan hátt, á hátt sem ég bjóst svo sannarlega ekki við.“

Það er margt sem hefur drifið á daga forsetahjónanna síðustu …
Það er margt sem hefur drifið á daga forsetahjónanna síðustu átta árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll getum við látið gott af okkur leiða 

Eliza segist oft hafa verið spurð að því hverju hún muni helst eftir síðustu átta ár. Hún lýsir því að erfitt sé að greina frá því í örfáum orðum en nefnir að á þessum tíma hafi hún fengið að sjá með eigin augum hvernig allskonar fólk vinnur að því og dreymir um að bæta heiminn. 

„Öll erum við fyrirmyndir – í fjölskyldu okkar, á vinnustað, í nærsamfélagi okkar og landinu öllu. Við ráðum því svo sjálf hvernig fyrirmyndir við kjósum að vera. Fæstum okkur mun víst auðnast að breyta hlutum til betri vegar svo að eftir verður tekið um alla framtíð. Öll getum við samt einhvern veginn reynt að láta gott af okkur leiða og mér þykir innilega vænt um að hafa fylgst náið með fólki í þeim sporum. Þótt við megum aldrei sofa á verðinum og margt megi betur fara erum við á leið í rétta átt,“ skrifar Eliza. 

Þakkar þeim sem réttu hjálparhönd 

Þá þakkar hún þeim sem hafa kynnt íslenskt samfélag á svo marga vegu fyrir henni og Guðna. Þeim sem hvöttu hana til að láta rödd sína heyrast og þeim sem réttu hjálparhönd þegar hún missteig sig, en ekki síst þeim sem aðstoðuðu með börnin mikilvægum tíma í þeirra uppvexti.

„Og ég þakka öllum gömlu vinunum og ættingjunum sem hafa vonandi fundið að man er sama manneskjan og man hefur alltaf verið (en ég á reyndar fleiri föt núna).“

Eliza kveðst hafa fengið að kynnast ýmsu í tíð sinni …
Eliza kveðst hafa fengið að kynnast ýmsu í tíð sinni sem forsetafrú. Eggert Jóhannesson

Fyrsta skáldsagan kemur út næsta vor 

„Ég notaði sviðsljósið til þess að vekja athygli á brýnum viðfangsefnum: jafnrétti kynjanna, fjölbreytileika, fjölmenningu og inngildingu, kynningu á íslenskri menningu og náttúru, sjálfbærri ferðamennsku og nýsköpun. Ég vildi senda þau skilaboð að fólk á alveg sama rétt hér þótt það tali íslensku með vitleysum og hreim. Og ég vildi líka senda þau skilaboð að þótt ég hafi glöð tekið þúsundir verkefna að mér í krafti þess að vera forsetafrú og sjálfboðaliði á þeim vettvangi gat ég líka unnið fyrir mér við verkefni sem ég hef sjálf notið og valið mér.“

Meðal þeirra verkefna sem Eliza valdi sér að vinna voru skrif á skáldsögu. Segir í færslunni að næsta vor komi hennar fyrsta skáldsaga út, glæpasaga sem gerist á Íslandi. Hún hyggst þó áfram vinna að landkynningu fyrir Ísland og segir: 

„Ég hlakka til að vinna að ýmsum verkefnum sem tengjast mínum hjartans málum: að kynna Ísland á erlendum vettvangi og fjalla um mikilvægar áskoranir á alþjóðavettvangi. Fylgist endilega með því sem þar kann að gerast!“

Færsluna í heild sinni má lesa hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert