Bjarni: Guðni forseti á sögulegum framfaratímum

Í dag sat Guðni forseti sinn síðasta ríkisráðsfund.
Í dag sat Guðni forseti sinn síðasta ríkisráðsfund. mbl.is/Eyþór Árnason

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að á síðasta ríkisráðsfundi Guðna Th. Jóhannessonar, fráfarandi forseta Íslands, hafi verið litið um öxl og þakkað fyrir gott samstarf síðustu árin.

„Það hefur verið mjög hnökralaust og traust samstarf á milli forsetans og þessarar ríkisstjórnar,“ segir Bjarni í samtali við blaðamann að fundi loknum.

Hann segir að forsetanum hafi verið færður blómvöndur á fundinum og nefnir að Guðni og fjölskyldan séu flutt í nýtt húsnæði ekki langt frá Bessastöðum.

„Vonandi fær blómvöndurinn góðan stað á nýju heimili þeirra hjóna,“ segir hann.

Hefur góða tilfinningu fyrir samstarfinu

Hann hefur góða tilfinningu fyrir komandi samstarfi með Höllu Tómasdóttur og er spenntur fyrir því samstarfi.

„Forseti fékk frábæra kosningu og sýndi það í sinni baráttu að hún hefur mikinn metnað fyrir landi og þjóð,“ segir hann og bætir við að hann búist við góðu og farsælu samstarfi.

Sögulegir tímar að baki

Er einhver stund sem stendur upp úr á síðustu árum?

„Það sem kannski stendur upp úr eru nokkrir hlutir. Í fyrsta lagi gerist það mjög snemma í forsetatíð Guðna að það er boðað til snemmbúinna kosninga. Þannig hann fékk það verkefni mjög snemma á sínum ferli óvænt upp í hendurnar og það leystist ágætlega úr því.

Í öðru lagi þá hafa þetta verið mjög sögulegir tímar fyrir þær sakir að við höfum verið að ganga í gegnum tíma, ekki bara eldsumbrota, heldur hafa hér líka á undanförnum árum verið snjóflóð, aurskriður, meiriháttar óveður sem reyndu á innviði landsins, síðan geisa stríð um þessar mundir í Evrópu,“ segir Bjarni og nefnir einnig að þjóðinni hafi fjölgað mikið á síðustu árum.“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er hann mætti á ríkisráðsfund áðan.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er hann mætti á ríkisráðsfund áðan. mbl.is/Anton

Miklar framfarir á síðustu árum

Hann segir síðustu ár þó ekki bara hafa verið brekku. Miklar framfarir hafi orðið hjá þjóðinni 

„Hins vegar hefur þetta ekki bara verið brekka heldur hafa orðið miklar framfarir á sama tíma hjá þjóðinni. Við höfum bætt lífskjör verulega og erum í stórum innviðaruppbyggingarmálum, eins og bygging Landspítalans er til vitnis um.

Lífskjör landsmanna hafa vaxið hröðum skrefum þannig ég held að þegar litið verði til baka yfir þetta tímabil þá hafi kannski breytingarnar verið meiri heldur en við áttuðum okkur á á meðan að árin liðu,“ segir hann.

Mikilvægt að vernda menninguna

Hann segir ýmsar áskorun fylgja fjölgun íbúa og breyttu alþjóðaumhverfi. Hann segir skipta máli að vernda íslensku tunguna og menninguna á tímum breytinga.

„Á sama tíma erum við að spegla okkur í alþjóðaumhverfinu og spyrja hvernig getum við notið sem allra besta lífskjara og borið okkur saman við það sem best gerist annars staðar,“ segir hann meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert