Brutu rúður og smíðastofa lögð í rúst

Skemmdarverk voru unnin í Grafarvogi í nótt.
Skemmdarverk voru unnin í Grafarvogi í nótt. Samsett mynd

Töluvert margar rúður voru brotnar og smíðastofan lögð í rúst í Rimaskóla í Grafarvogi í nótt. Einnig var hver einasta rúða brotin í gröfu á vegum Sælugarða í grennd við skólann. 

Mikið tjón í Rimaskóla

 „Þetta er mikið tjón,“ segir Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjóri Rimaskóla, í samtali við mbl.is.

„Það er búið að vera að krota á veggi og glugga og eyðileggja nýja glugga sem er nýbúið að setja í,“ segir hún.

Veggjakrot við Rimaskóla.
Veggjakrot við Rimaskóla. Ljósmynd/Aðsend
Veggjakrot við Rimaskóla.
Veggjakrot við Rimaskóla. Ljósmynd/Aðsend

Hún segist ekki vita hvort að einhverju hafi verið stolið úr smíðastofunni sem lögð var í rúst í nótt.

Smíðastofan var lögð í rúst í Rimaskóla í nótt.
Smíðastofan var lögð í rúst í Rimaskóla í nótt. Ljósmynd/Aðsend

Lögreglan nokkuð viss að um ungmenni sé að ræða

„Það kemur alltaf af og til svona bylgja, þetta hefur ekki verið svona í eitt ár,“ segir Þóranna spurð hvort svona atvik komi oft upp.

„Þetta segir manni bara að ákveðnum aðilum leiðist og þeir þurfa eitthvað að dúlla sér við og þetta er partur af skemmtuninni.“

Skemmdarverk inni í Rimaskóla.
Skemmdarverk inni í Rimaskóla. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir lögregluna nokkuð vissa um að um ungmenni komi að skemmdarverkunum. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang þá hafi hún séð einstaklinga hlaupa í burtu.

„Þetta er mikið tjón.“

Þóranna segir vinnuskólann nýta húsnæði Rimaskóla í sumar og að eftir verslunarmannahelgi komi starfsmenn til starfa aftur eftir sumarfrí.

Það þurfi því að reyna á það að láta laga sem flest áður en starfsmenn komi til starfa, en panta þurfi nýjar rúður og fleira sem gæti tekið lengri tíma.

Hver einasta rúða brotin

Grafa á vegum Sælugarða í grennd við Rimaskóla var einnig lögð í rúst. „Það er búið að brjóta hverja einustu rúðu í gröfunni,“ segir Jóhann Skúlason, skrúðgarðyrkju- og húsasmíðameistari og eigandi Sælugarða, í samtali við mbl.is.

Hann segir gröfuna hafa verið notaða við endurgerð á leiksvæði fyrir neðan Rimaskóla við Gufunes. Honum hafi verið tilkynnt að það væri búið að vinna skemmdarverk á gröfunni hjá sér. 

Hann segist ekki vita hverjir stóðu að skemmdarverkinu, en það séu myndavélar á svæðinu og að lögreglan sé að skoða málið.

Allar rúður voru brotnar í gröfunni.
Allar rúður voru brotnar í gröfunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert