Dvalið í 34 húsum í Grindavík þrátt fyrir hættustig

Lögregla kveðst ekki geta ábyrgst aðila sem kjósa að dvelja …
Lögregla kveðst ekki geta ábyrgst aðila sem kjósa að dvelja í Grindavík að næturlagi við núverandi aðstæður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir ekki hægt að útiloka að gossprunga geti opnast inn í Grindavík. Ekki sé mælst til þess að íbúar dvelji í bænum og hver og einn því á eigin ábyrgð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 24. júlí að færa almannavarnastig af óvissustigi yfir á hættustig. Er hættumatið því óbreytt með vísan til hættumatskorts Veðurstofunnar, sem er í gildi til 6. ágúst.

Gosopnun innan Grindavíkur ekki útilokuð

Lögreglustjóri mælir gegn dvöl í bænum en mjög mikil hætta er talin á jarðfalli ofan í sprungur, sprunguhreyfingum, hraunflæði og gasmengun. Gosopnun innan Grindavíkur sé ekki útilokuð og verður hver og einn því að bera ábyrgð á eigin athöfnum í bænum.

Þá tekur lögreglustjóri skýrt fram að Grindavík sé ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Alls ekki sé æskilegt að dvelja þar að næturlagi. Fáir kjósi að gera það, en þó hafi verið dvalið í 34 húsum síðastliðna nótt. 

„Lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður,“ segir í tilkynningunni.

Uppfært hættumatskort Veðurstofunnar.
Uppfært hættumatskort Veðurstofunnar. Kort/Veðurstofa Íslands

Hraun geti náð inn fyrir varnargarða

Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.

„Á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi eru auknar líkur á eldgosi. Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara.“

„Tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka