„Ekkert blíðviðri“ í Eyjum

Vindasamt verður í Vestmannaeyjum.
Vindasamt verður í Vestmannaeyjum. mbl.is/Óskar

Veðrið um verslunarmannahelgina verður ekkert til þess að hrópa húrra yfir, en gæti þó verið verra. Veðurfræðingur hjá Veðurstofunni hvetur til bjartsýni.

Á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum gæti orðið ansi vindasamt frá föstudegi og fram á laugardag, rokið ætti þó ekki að standa yfir alla helgina.

Leiðinlegt veður á föstudaginn og yfir á laugardag

„Í Eyjum getum við sagt að föstudagurinn líti ekkert voðalega vel út núna. Það fer að rigna og verður svolítið leiðinlegt veður líklega á föstudaginn, og síðan hvessir þarna um kvöldið, þannig það gæti orðið hvassviðri þarna á aðfaranótt laugardags og fyrripart laugardags.

En það sem gerist síðan er að síðdegis á laugardag, laugardagskvöld og sunnudag er, allaveganna núna, útlit fyrir allt í lagi veður í Eyjum. Föstudagurinn og fram yfir hádegi á laugardag lítur ekkert vel út en eftir það er þetta alveg þokkalegt,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Hvað flokkar þú sem þokkalegt?

„Á föstudaginn er rigning og svo um kvöldið og nóttina er hvasst. Síðan í raun dregur úr vindinum seinnipartinn, á laugardag er jú, einhver vindur, en nokkurn veginn þurrt. Á sunnudag er útlit fyrir að það verði tiltölulega hægur vindur og jú, kannski einhverjir dropar, en engin aftaka rigning. Þetta er ekkert blíðviðri en það er ekkert útlit fyrir að það verði óþægilegt útiveruveður.“

„Það verður að líta bjartsýnum augum á hlutina,“ segir Birgir en bætir við að það verði þó leiðinlega hvasst í Eyjum. 

Rigning á Austfjörðum

Hvað heildarmyndina fyrir landið varðar segir Birgir föstudaginn verða sérstaklega leiðinlegan á Austfjörðum en að veðrið muni þó skána. Besta veðrið verði suðvestanlands og á Vesturlandi. 

„Svolítið mikil rigning á Austfjörðum, þegar það líður á föstudaginn. Einhver rigning þá í öllum landshlutum en minnst hérna á vesturhluta landsins, þá er þetta frekar minniháttar rigning og sæmilega hlýtt. Laugardagurinn er skárri nema þá er bara þungbúið og einhver rigning á Austurlandi en hlýtt og lengst af þurrt á Suðvestur- og Vesturlandi og sunnudagurinn er í raun svolítið í sama dúr, besta veðrið er hérna suðvestanlands og á Vesturlandi,“ segir Birgir. 

Það er ekki alltaf sól á Akureyri

Suðvesturhornið virðist almennt í bestu stöðunni og gæti farið svo að laugardagurinn verði einn af hlýrri dögum sumarsins á svæðinu. 

„Hlýtt miðað við það sem verið hefur, hitinn örugglega kemst í 17, jafnvel 18 gráður og jafnvel sólríkt með köflum. En báða dagana eru líkur á því að það komi einhverjir dropar seinnipartinn en engin rigning að ráði.“

Hvað varðar Akureyri, og góða veðrið sem á alltaf að finnast þar, eru líkur á nokkuð mildu veðri. Þó engu til að hrópa húrra yfir.

„Það er austanátt og hún er oftast ágæt á Akureyri, vindurinn nær sér lítið á strik og föstudaginn er þá bara einhver smá rigning. Síðan er laugardagurinn eiginlega þurr og sæmilega mildur og nokkuð góður. Á sunnudaginn eru aftur einhverjar líkur á rigningu og þá kólnar svolítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert