Ferðaformúlan hefur breyst

Lögreglan ítrekar að fólk skuli virða umferðarreglur.
Lögreglan ítrekar að fólk skuli virða umferðarreglur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verslunarmannahelgin er fram undan og margir ætla sér að leggja land undir fót. Lögreglan biðlar til ökumanna að virða umferðarreglur, passa ferðahýsi og halda sig frá snjalltækjum við akstur. Verslunarmannahelgin er þó ekki eina stóra ferðahelgin, heldur eru allar helgar júlímánaðar flokkaðar sem stórar ferðahelgar af lögreglu.

„Okkur sýnist að ferðaumferðin sé ekkert endilega bara tengd verslunarmannahelginni heldur að fólk sé í sumarfríi. Það hefur verið talsvert um það að fólk hafi strax í byrjun vikunnar verið að fara út úr bænum með ferðahýsi eins og við köllum það, tjaldvagna, hjólhýsi, fellihýsi og hvað annað,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Álagið dreifist

„Þetta var áður í gamla daga kannski meira og minna á föstudeginum en þetta er farið að dreifast lengra í vikuna og byrja fyrr, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag. Síðustu árin hefur ekki verið jafn mikið álag á föstudeginum eins og var oft áður.

Þetta sumar hefur svo sem kannski verið sérstakt að því leytinu að það hefur ekki verið sérstakt veður víða um land í júlí en við höfum síðustu árin litið á að fyrsta helgin í júlí og fram yfir verslunarmannahelgina séu stórar ferðahelgar. Þannig við höfum oft og tíðum ekki séð voðalega mikinn mun á verslunarmannahelgi og góðum helgum í júlí.“

Veðurspáin stýrir álaginu

Guðbrandur segir veðurspána stjórna því hvar álagið liggi en það hafi dreifst jafnt enn sem komið er. Fólk heimsæki sumarbústaðabyggðir óháð veðri. 

Hann biðlar til fólks að fara varlega í umferðinni og huga að því að allt sé í toppstandi þegar kemur að keyrslu með ferðahýsi.

„Við leggjum bara áherslu á að fólk gæti að sér og virði umferðarreglur. Leggjum þá áherslu á hámarkshraða, belti og ölvun eða vímuefnaakstur og að vera með ljósin kveikt,“ segir Guðbrandur.

Þá ítrekar hann að fólk skuli láta snjalltækin vera á meðan það keyrir um vegi landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert