Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að ríkisráðsfundurinn hafi verið óvenjulegur í ljósi þess að þetta hafi verið síðasti fundur Guðna Th. Jóhannessonar, fráfarandi forseta Íslands.
„Þetta er auðvitað óvenjulegur ríkisráðsfundur að því leyti að þetta er síðasti ríkisráðsfundur sitjandi forseta. Þannig það er svona tilefni til að fara yfir þennan tíma saman, sem hefur auðvitað ekki verið rólegur og ekki einn sögulegur viðburður heldur allnokkrir,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is að fundi loknum.
Hún segir að það hafi verið ljúft og hlýtt að rifja upp síðustu ár þó hún taki fram að fundurinn sjálfur hafi verið nokkuð formfastur.
Rædduð þið málefnin eitthvað?
„Þetta var algjörlega hefðbundinn fundur að því leyti að hver og einn ráðherra fer yfir þau mál sem hafa farið í gegn frá síðasta ríkisráðsfundi. Svo í óformlegu spjalli er hægt að tala aðeins um önnur mál,“ segir Þórdís og bætir við:
„Svo er auðvitað stór dagur aftur á morgun með Höllu [Tómasdóttur] í aðalhlutverki sem verður mjög skemmtilegt. Ég hlakka til.“
Halla Tómasdóttir verður formlega sett í embætti á morgun. Athöfnin fer fram í Alþingishúsinu og er almenningur boðinn velkominn á Austurvöll til að fylgjast með athöfninni og fagna nýjum forseta.