Gæti gosið eftir eina til tvær vikur

Síðasta eldgosi við Sundhnúkagíga lauk 9. maí.
Síðasta eldgosi við Sundhnúkagíga lauk 9. maí. mbl.is/Hörður Kristleifsson

„Ef til goss kemur, þá er þetta ein til tvær vikur. Kerfið er í rauninni svo gott sem að verða tilbúið. Svo er bara spurning hvort að kvikan nái upp eða ekki. Það hafa orðið kvikuhlaup þar sem verða ekki gos. Það eru allir á tánum og það er vel fylgst með.“

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is, um mögulegt gos á eða við Sundhnúkagígaröðina.

Hún segir allar líkur á því að ef til gos komi að það yrði svipað og í síðustu skipti á sama svæði.

„Við þurfum alltaf að gera ráð fyrir að þetta geti gerst mjög hratt og að fyrirvarinn sé lítill. Hingað til hefur verið einhver fyrirvari,“ segir Lovísa.

Skjálftinn tengist ekki mögulegu gosi

Hún segir lítið vera að frétta af eldvirkni á Reykjanesskaganum frá því í gær.

Skjálftavirkni mælist örlítið minni heldur en hefur verið, en sennilega sé það vegna veðurs. 

Jarðskjálftinn af stærðinni 3 sem varð á Reykjanestánni í gærkvöldi tengist ekki eldvirkninni á og við Sundhnúkagígaröðina, að sögn Lovísu Mjallar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert