„Gatan veitir gleði í samfélagið“

Regnbogabraut/Garðarsbraut á Húsavík verður lokuð fyrir akandi umferð til 12. …
Regnbogabraut/Garðarsbraut á Húsavík verður lokuð fyrir akandi umferð til 12. ágúst. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Vinsældir göngugötu á Húsavík, sem nefnd hefur verið Regnbogabraut, hefur notið svo mikilla vinsælda meðal heimamanna og ferðamanna að sveitarfélagið hefur ákveðið að halda henni lokaðri fyrir akandi umferð fram til 12. ágúst. 

Hluta Garðarsbrautar var lokað fyrir umferð fyrr í mánuðinum og hún máluð í regnbogalitunum. Var hún því nefnd Regnbogabraut. Upphaflega stóð til að gatan yrði aðeins lokuð fyrir akandi umferð fram yfir bæjarhátíðina Mærudaga, en henni lauk síðasta sunnudag.

Heimildin fullnýtt

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings segir í samtali við mbl.is að í júlíbyrjun hafi verið samþykkt af skipulags- og framkvæmdaráði að hafa götuna lokaða á tímabilinu á meðan á mesta ferðamannstrauminum stendur og allt til 12. ágúst.

Síðan hafi gatan verið máluð og lokunin hafi mælst svo vel fyrir hjá verslunareigendum við götuna að það hafi komið beiðni um að fullnýta heimildina svo það var ákveðið að hafa hana lokaða áfram til 12. ágúst.

Katrín tekur fram að þessi lokun hafi engin neikvæð áhrif á umferð. Það séu fleiri umferðarleiðir sem hægt sé að fara þó þessi gata sé lokuð yfir þennan háannatíma.

„Almenningur hérna er mjög ánægður með þessa framkvæmd og gatan veitir gleði í samfélagið,“ segir hún.

Regnbogabrautin séð úr lofti skömmu eftir að hún var máluð.
Regnbogabrautin séð úr lofti skömmu eftir að hún var máluð. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Mærudagar fóru vel fram

Mærudagar voru haldnir um síðustu helgi og að sögn Katrínar gengu þeir vel. Það hafi verið mikil og góð þátttaka af heimamönnum og fjöldi gesta lagt leið sína til bæjarins.

„Það var alveg bongóblíða hérna á laugardeginum sem er náttúrulega aðalskemmtidagurinn.“

Katrín segir að þeir sem hafi komið að hátíðinni undanfarin ár segi að þátttakan hafi verið ívið meiri núna. En allt hafi farið vel fram og að aldrei hafi myndast nein örtröð.

„Þetta rann ljúflega um hátíðarsvæðið.“

Stöðugur straumur ferðamanna allt sumarið

Spurð hvort eitthvað sé um að vera á Húsavík um næstu helgi, verslunarmannahelgina, segir Katrín að enginn sérstakur viðburður verði, þá en að það sé alltaf stöðugur straumur af fólki á Húsavík allt sumarið.

„Þannig að við eigum bara von á þessari hefðbundnu sumarumferð af ferðafólki,“ segir Katrín. Það séu bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn sem komi til Húsavíkur. Íslendingar sæki mest í náttúruna allt í kringum Húsavík en einnig eitthvað í hvalaskoðun.

Hún segist einnig merkja aukna umferð fólks sem er að leita út fyrir þessa hefðbundnu ferðamannastaði. Það sé t.d. aukin umferð í sumar á Raufarhöfn og Kópaskeri. Það bendi til þess að fólk sé að sækjast í að vera utan við þessa þéttustu ferðamannastaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert