Guðni kunni að slá á létta strengi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eyþór

„Efst í huga er þakklæti gagnvart góðu samstarfi við Guðna sem forseta,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, eftir að hafa setið síðasta ríkisráðsfund Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands.

Segir Áslaug að á þeim fimm árum sem hún hefur setið í ríkisstjórn hafi verið ótrúlega gott samstarf á milli hennar og forsetans fráfarandi.

Er einhver stund sem stendur upp úr í ykkar samstarfi?

„Það sem Guðni kann á svona formlegum fundum er bæði að halda í hefðir en líka að slá á létta strengi. Það er mikilvægt að bera mikla virðingu fyrir þeim störfum sem við sinnum fyrir landi og þjóð en á sama tíma líka að geta brosað út í annað og haft gaman að því sem við gerum,“ segir ráðherrann.

Með hverjum forseta komi eitthvað nýtt

Upplýsir Áslaug að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, gefið forsetanum blómvönd á fundinum sem þakklætisvott.

Segist hún þá spennt fyrir komandi samstarfi með nýjum forseta þjóðarinnar, Höllu Tómasdóttur.

„Með hverjum forseta kemur eitthvað nýtt og nýjar áherslur á sama tíma og gengið er inn í frekar formfast embætti. Þannig ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að starfa með nýjum forseta og óska henni velfarnaðar í hennar störfum.“

Síðasti ríkisráðsfundur Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands fór …
Síðasti ríkisráðsfundur Guðna Th. Jóhannessonar í embætti forseta Íslands fór fram í dag. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert