Hleypa hátíðinni af stað með sumarkjólum og freyðivíni

Ein með öllu á rætur að rekja til byrjun tíunda …
Ein með öllu á rætur að rekja til byrjun tíunda áratugarins. Mynd úr safni. Mbl.is/Þorgeir

Ein með öllu verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hátíðinni verður hleypt af stað í kvöld með sumarkjóla og freyðivínshlaupi í Kjarnarskógi. 

Davíð Rúnar Gunnarsson, frá Vinum Akureyrar, sem sjá um hátíðarhöldin, segir hátíðina vera fyrst og fremst bæjar- og fjölskylduhátíð, þó nóg verði um að vera.

Tvo tívólí mætt til bæjarins

„Hér er sól eins og staðan er núna og við vonum það besta og að það rætist eitthvað úr veðurspánni.“

Hann segir hátíðina fyrst og fremst vera bæjarhátíð og því ekki endilega útihátíð. Hátíðin er miðuð að fjölskyldum, en auðvitað er nóg um að vera þegar kvölda tekur og nóg af skemmtistöðum í bænum til að halda fjörinu gangandi fram á nótt.

„Þetta er auðvitað bæði dagur og nótt, en við erum með rosalega dagskrá fyrir fjölskylduna.“

Hann segir tvö tívólí vera mætt til bæjarins og að hátíðinni verði hleypt af stað í kvöld með sumarkjóla og freyðivínshlaupi í Kjarnaskógi.

Hokinn reynslu 

Að sögn Davíðs verður stærsti viðburður hátíðarinnar sparitónleikarnir á sunnudagskvöldinu þar sem Kristmundur Axel, Stjórnin og Prettyboitjokkó koma meðal annars fram.

„Svo endar þetta með risaflugeldasýningu sem björgunarsveitin Súlur sér um.“

Þó að nafn hátíðarinnar hafi tekið breytingum með tímanum segir Davíð hana eiga rætur að rekja til byrjun tíunda áratugarins og er Davíð hokinn reynslu þegar kemur að hátíðarhöldum, enda búinn komið að skipulagningu hennar allt frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert