Ingó svarar fyrir sig

Ingó bendir á að hann hafi aldrei verið ákærður fyrir …
Ingó bendir á að hann hafi aldrei verið ákærður fyrir ofbeldisbrot. mbl.is/Árni Sæberg

Tón­list­armaður­inn Ingólf­ur Þór­ar­ins­son, bet­ur þekkt­ur sem Ingó veðurguð, segist hafa spilað á mörgum viðburðum síðustu þrjú ár, og fengið góð viðbrögð alls staðar, en enn sé fólk sem reyni að eyðileggja alla hans viðburði.

Ingó verður með tónleika í Skógarböðunum á Akureyri á laugardag. Fjöldi fólks hefur skrifað ummæli undir Facebook-færslu baðanna og gagnrýnt það að hann spili þar. 

Fyrir rúmum þremur árum var Ingó sakaður um kynferðisofbeldi. Hann hefur neitað sök. 

Aldrei verið ákærður fyrir ofbeldisbrot

„Þetta hefur tekið á bæði mig og alla mína fjölskyldu og vini en ég ákvað í upphafi að halda mínu striki þar sem tíminn myndi leiða í ljós að ég var aldrei í þessum hræðilegu hlutum og þetta væri dæmi um nafnlaust bull sem varð að snjóflóði. Ég tel það hafa komið ágætlega í ljós þó erfitt sé að sanna sakleysi sitt,“ skrifar Ingó á Facebook.

Þá ítrekar Ingó að hann hafi aldrei verið ákærður fyrir ofbeldisbrot. Hann hvetur fólk til að hugsa sig um áður en það fremji „mannorðsmorð á internetinu“.

„Ef þeir sem völdin hafa fara ekki að átta sig á skaðanum sem allt cancel culture og vók hyskið er að valda í kringum sig verður að lokum ofbeldi eina svarið,“ skrifar Ingó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka