Landris mælist en sprengigos kæmi á óvart

Benedikt segir jarðhitakerfið í Öskju geta minnt á síg fyrirvaralaust.
Benedikt segir jarðhitakerfið í Öskju geta minnt á síg fyrirvaralaust. mbl.is/Árni Sæberg

Landris heldur áfram í Öskju. Jarðvísindamenn, sem fylgst hafa með eldstöðinni í allan vetur, hafa enn auga með eldstöðinni.

Skjálftahrinur í Öskju eru reglulegar en síðastu hrinu varð vart í mars. Þá hafa verið hrinur í nágrenni eldstöðvarinnar síðan.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir að hægt hafi á landrisinu síðasta haust en það hafi ekki stöðvast og haldið áfram með mjög svipuðum hraða.

Þolmörkin ókunn

Skjálftahrinur í nágrenni eldstöðvarinnar segir hann algengar. „Það hafa verið hrinur í Herðubreiðartöglum ef ég man rétt en það er svo sem ekkert sérstakt við þær hrinur. Þær koma reglulega.“

Hvað þolmörk Öskju varðar segir Benedikt jarðvísindamenn ekkert hafa til að miða við. Þeir geti ekkert sagt til um hversu hátt land þurfi að rísa eða hversu mikil kvika þurfi að safnast upp.

„Við fylgjumst bara með. Mér finnst nú ólíklegt að eitthvað meira gerist án þess að skjálftavirkni aukist til muna. Ef þetta fer að nálgast einhver þolmörk ættum við að sjá verulega aukna skjálftavirkni og jafnvel breytingar á jarðhitavirkni,“ segir Benedikt og bætir því við að engin merki séu um sérstakar breytingar á jarðhitakerfinu enn sem komið er.

Sprengigos kæmi á óvart

Nokkur lítil hraungos urðu í Öskju í byrjun 20. aldar, það síðasta árið 1962 en stór sprengigos eins og það sem varð árið 1875 eru mjög sjaldgæf að sögn Benedikts og gerast aðeins á nokkur þúsund ára fresti.

„Að fá annað aftur núna myndi koma held ég mjög á óvart. Ég held að það hafi komið þrjú svona stór sprengigos síðustu 10 þúsund árin.“

Þó sprengigos sé ólíklegt segir Benedikt gos í Öskju alltaf verða hættuleg enda almennt margt fólk á Öskjusvæðinu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Virkt jarðhitakerfi

Ef kvika kæmi upp úr Öskjuvatni sjálfu verður sprengigos, sem Benedikt segir vissulega geta gerst.

„Þú getur fengið basaltkviku inn í vatn og þá færðu auðvitað sprengigos. Þá getum við einnig fengið jarðhitasprengingar eins og við fáum stundum, á borð við Víti, en það er ekkert sem bendir til að neitt slíkt sé í bígerð núna,“ segir hann.

Hann segir jarðhitakerfið virkt á svæðinu og geti gert ýmislegt en jarðhiti í Öskju hafi ekki aukist sjáanlega undanfarið. Hann geti þó gert það fyrirvaralaust, eins og skriðan sem féll í vatnið árið 2014 hafi borið vitni um.

„Það er allt mjög stöðugt enn þá. Þannig að þessi þensla eða kvikusöfnun virðist ekki enn þá vera farin að berast upp á yfirborðið með jarðhitanum, alla vega ekki þannig að það sé mælanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka