Neistar fljúga um helgina í Neskaupstað

Að tónleikum loknum verður sannkallað neistaflug með flugeldasýningu.
Að tónleikum loknum verður sannkallað neistaflug með flugeldasýningu. Ljósmyndari/Hlynur Sveinsson

Neistaflug Neskaupstaðar verður haldið í 31. sinn um verslunarmannahelgina. María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs, segir hátíðina vera fjölskyldu- og bæjarhátíð í senn sem verði með hefðbundnu sniði, en að meira púður hafi verið sett í fjölda tónlistarmanna. 

María segir þau ætla að þjófstarta hátíðinni í kvöld og mikil spenna sé fyrir komandi helgi. Hún segir að ekki kosti á neina dagskrá utandyra, en að kaupa þurfi miða á tónleika og böll innanhús.

Hún segir miðasöluna ganga vel hingað til og að fólk geti enn nælt sér í miða á hátíðina.

Púður og flugeldasýning

Eins og flestir horfir María vonaraugum á veðurspá helgarinnar sem hefur tekið talsverðum breytingum frá degi til dags í vikunni: 

„Maður vonar bara það besta og opnar veðurspána nokkrum sinnum á dag.“

Hún segir hátíðina fagna 31 árs afmæli í ár og vera með hefðbundnu sniði þetta árið, en að meira púður hafi verið sett í fjölda tónlistarmanna. 

Hún kveðst vera stolt af árlegum stórtónleikum hátíðarinnar sem verða haldnir á sunnudaginn utandyra og allir velkomnir á þá að kostnaðarlausu. Að tónleikum loknum verður sannkallað neistaflug með flugeldasýningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert